Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vopnahléi lýst yfir á Gaza

epa09215109 Palestinians inspect their destroyed house after Israeli air strikes in Gaza City, 20 May 2021. In response to days of violent confrontations between Israeli security forces and Palestinians in Jerusalem, various Palestinian militant factions in Gaza launched rocket attacks since 10 May that killed at least ten Israelis to date. Gaza Strip's health ministry said that at least 230 Palestinians, including 64 children, were killed in the recent retaliatory Israeli airstrikes.  EPA-EFE/HAITHAM IMAD
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ísraelska ríkisstjórnin, Hamas og Íslamskt jihad staðfestu í kvöld að samningar hefðu tekist um vopnahlé. Á þriðja hundrað hafa farist í árásum undanfarið, langflestir almennir borgarar og fjöldi þeirra börn. Þar með vakna vonir um að ellefu daga blóðbaði ljúki.

Vopnahléið á að taka gildi klukkan tvö að nóttu að staðartíma, klukkan ellefu í kvöld að íslenskum tíma. Egyptar höfðu milligöngu um vopnahléið. Harðar árásir voru gerðar í dag meðan verið var að semja um vopnahlé. Egyptar hyggjast senda tvær sendinefndir til að fylgjast með því að vopnahléið verði virt. Önnur fer til Ísraels og hin til Palestínu.

Riad Al-Malki, utanríkisráðherra Palestínu, sagði í kvöld að fordæma yrði árásir Ísraela. Hann sagði að þeir hefðu alltaf forðast í lengstu lög að semja um gagnkvæmt vopnahlé, þannig reyndu þeir að komast hjá því að viðurkenna aðra deiluaðila. 

Ísraelska ríkisstjórnin sagði í yfirlýsingu um vopnahléið að loftárásir síðustu daga hefðu skilað fordæmalausum árangri. 

Síðustu ellefu daga hafa 232 Palestínumenn fallið, þar af 65 börn, og tólf Ísraelar, þar af tvö börn. Auk þess hafa um 90 þúsund íbúar Gaza misst heimili sín í loftárásum Ísraela eða þurft að flýja heimili sín vegna árásanna. 66 þúsund þeirra hafa leitað skjóls í skólum og 25 þúsund dvelja hjá ættingjum.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kallaði eftir því í dag að árásirnar yrðu stöðvaðar tafarlaust. „Ef til er helvíti á jörðu þá lifa börnin á Gaza í því.“

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í kvöld að hann væri reiðubúinn að halda til Miðausturlanda ef hann gæti orðið að liði við að tryggja frið fyrir botni Miðjarðarhafs. Hann tilgreindi þó ekki hvenær það kynni að verða.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 21:06.