Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vopnahlé er talið vera á næsta leiti

A Palestinian boy sits looking at others inspecting the damage of their shops following Israeli airstrikes on Jabaliya refugee camp, northern Gaza Strip, Thursday, May 20, 2021. Heavy airstrikes pummeled a street in the Jabaliya refugee camp in northern Gaza, destroying ramshackle homes with corrugated metal roofs nearby. The military said it struck two underground launchers in the camp used to fire rockets at Tel Aviv. (AP Photo/Khalil Hamra)
 Mynd: AP
Tilraunir Egypta og fleiri þjóða til að koma á vopnahléi milli Palestínumanna og Ísraelsmanna eru farnar að skila árangri. Gert er ráð fyrir að því verði lýst yfir á morgun eða laugardag. Eftir tiltölulega rólega nótt hófust hernaðaraðgerðir beggja þegar leið á morguninn.

Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal segir í dag að mögulega verði samið um vopnahlé á morgun, þökk sé þrotlausri vinnu egypskra samningamanna sem hafi verið í stöðugum viðræðum við leiðtoga Hamas-samtakanna á Gaza og stjórnvöld í Ísrael. Fleiri hafi lagt lóð á vogarskálarnar, svo sem Bandaríkjamenn, Katarar og nokkrar Evrópuþjóðir.

Þá hefur CNN eftir leiðtogum Hamas að samkomulag sé á næsta leiti, jafnvel á morgun eða laugardag. Óvíst er þó hvernig liðsmenn Islamic Jihad, samtaka herskárra palestínskra íslamista, taka þeim tíðindum og hvort þeir virða vopnahléið. 

Eldflaugaskothríð frá Gaza yfir til Ísraels hætti um eittleytið í nótt að staðartíma og þremur stundum síðar dró úr árásum Ísraelshers. Hernaðaraðgerðirnar hófust þó að nýju þegar morgnaði. Meðal annars hæfði flugskeyti frá norðurhluta Gaza rútu sem þrjátíu ísraelskir hermenn voru nýstignir út úr. Einn meiddist lítillega þegar hann varð fyrir braki úr rútunni.

Átökin frá því á mánudag í síðustu viku hafa kostað 230 Palestínumenn lífið, aðallega almenna borgara og þar á meðal 65 börn. Tólf eru fallnir í Ísrael, þar af þrír erlendir ríkisborgarar og eitt barn.