Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segir Palestínumennina hafa átt val

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - rúv
Útlendingastofnun hefur svipt hóp níu palestínskra hælisleitenda, sem til stendur að endursenda til Grikklands, húsnæði og tekið af þeim fæðisgreiðslur. Staðgengill forstjóra Útlendingastofnunar segir aðgerðina samræmast lögum og reglum og ekki án fordæma. Mennirnir neituðu að undirgangast Covid-próf en það er forsenda þess að hægt sé að senda þá úr landi. Kona sem skotið hefur skjólshúsi yfir hluta hópsins segir aðgerðirnar ómannúðlegar.

Greinir á um hvort ákvörðun sé komin til framkvæmdar

Lögmenn mannanna, sem átti að endursenda til Grikklands, telja Útlendingastofnun með ákvörðun sinni hafa farið á svig við reglugerð um útlendinga þar sem kemur fram að stofnunin eigi að veita skjólstæðingum sínum þjónustu uns ákvörðun um að þeir yfirgefi landið kemur til framkvæmdar. Þorsteinn Gunnarsson, staðgengill forstjóra Útlendingastofnunar, segir að mennirnir hafi með því að neita að gangast undir Covid-próf raskað framkvæmd brottvísunar, það sé þeirra val og líta megi svo á að brottvísunin sé komin til framkvæmda þó mennirnir séu enn á landinu. „Eðli máls samkvæmt þá eru Covid-test ekki tekin með valdi. Almennt er litið á þetta þannig að í langflestum málum sem við erum að fást við þá stendur að einhverju leyti upp á stjórnvöld hér á Íslandi, í flestum tilvikum lögregluna að útvega ferðaskilríki eða heimild til að ferðast, í þessu tilviki er það ekki. Það er allt klárt til að fara þannig að við teljum að það sé rétt að líta á það þannig að neiti viðkomandi að undirgangast þetta próf sé ákvörðunin komin til framkvæmda.“ 

Í tilkynningu sem mönnunum barst um hugsanlega skerðingu eða brottfall þjónustu segir að lögregla hafi tjáð Útlendingastofnun að þeir hafi ekki farið að fyrirmælum stjórnvalda í tengslum við framkvæmd flutnings þeirra úr landi og þannig komið í veg fyrir að fyrirhugaður flutningur færi fram, í málinu liggi fyrir framkvæmdarhæf ákvörðun og því teljist ákvörðunin komin til framkvæmdar. Mönnunum var svo gefinn frestur til þess að ákveða hvort þeir vildu sýna samstarfsvilja, ella yrði þjónusta við þá felld niður. 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Umsækjendur um alþjóðlega vernd mótmæla brottvísunum.

Telur stjórnvöld ganga yfir mörk velsæmis

Þetta er níu manna hópur sem í raun er á götunni en fréttastofu skilst að flestir séu komnir með tímabundið húsaskjól. Þrír úr hópnum dvelja heima hjá Maríu Lilju Þrastardóttir Kemp og fjölskyldu hennar. „Þegar stjórnvöld ganga svona yfir mörk velsæmis og mannúðar þá þurfum við sem almenningur að bregðast við, við viljum auðvitað ekki að slíkt sé gert í okkar nafni,“ segir María Lilja. 

Hún segir að það felist stofnanaofbeldi í því að neita mönnunum um vernd á grundvelli uppruna, þá séu þessir menn í sérstaklega veikri stöðu vegna stríðsátaka í heimalandi þeirra. 

María segist ekki getað hýst alla í þessari stöðu en að mennirnir þrír fái áfram að dvelja undir hennar þaki. „Ekki geta þeir dvalið á götunni, við viljum bara hafa hér opið hús fyrir þá á meðan þarf.“ 

Sérstakar aðstæður en ekki án fordæma

Þorsteinn segir að máli mannanna sé lokið. Þeir séu með dvalarleyfi á Grikklandi, hæliskerfið sé neyðarkerfi og það liggi fyrir krafa um að mennirnir fari af landi brott. Hann segir ekki án fordæma, að greiðslur til fólks séu felldar niður, svo sem ef fólk sem á yfir höfði sér brottvísun hefur farið í felur.

Lögmenn mannanna telja Útlendingastofnun hafa brotið reglugerð um útlendinga, ákvæði 23 þar sem segir: „Þjónusta fellur niður 14 dögum frá birtingu ákvörðunar um að veita einstaklingi vernd, þremur dögum eftir að hann hefur dregið umsókn sína til baka eða á þeim degi þegar ákvörðun um að umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli yfirgefa landið kemur til framkvæmdar." Lögmennirnir segja þekkt að fólk sem vill ekki fara úr landi neiti að aðstoða við eigin brottvísun en það eigi samt að fá mat og húsaskjól.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, var harðorður á Alþingi í dag, sagði að verið væri að svelta hælisleitendur til hlýðni. Þorsteinn vísar því á bug en segir aðstæðurnar vissulega sérstakar. „Almennt lendum við ekki á þeim stað að fólk hafi þetta vald yfir þessari aðgerð, þetta eru nýjar aðstæður en við teljum þetta rúmast innan þessa orðalags sem reglugerðin kveður á um, að túlka þetta með þessum hætti.“ Þá segir Þorsteinn umsækjendur um alþjóðlega vernd sem átti að vísa úr landi fyrr í vetur hafa neitað því að fara í sýnatöku, en svo snúist hugur og farið að vilja yfirvalda. 

Geti gefið sig fram sem útlendingar í neyð

En hver er staða þeirra níu Palestínumanna sem nú eru upp á aðra komnir? Eru þeir alveg utan kerfis? „Það er búið að fara yfir þetta með öllum sem í hlut eiga og útskýra fyrir þeim hvaða afleiðingar þetta val hefur, þeir geta leitað til félagsþjónustu, útlendingar í neyð eða á aðra staði. Ef þeim snýst hugur eru þau velkomin til okkar aftur í þjónustu.“Þeir yrðu þá í framhaldinu fluttir úr landi en fengju húsnæði og matarpeninga þangað til.