Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins í beinni útsendingu

Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins verður haldinn í Hörpu í dag og hefst klukkan níu. Fundurinn markar lok tveggja ára formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og Rússar taka við keflinu. Norðurskautsráðið heldur ráðherrafundi á tveggja ára fresti, í lok hvers formennskutímabils.

Utanríkisráðherrar norðurskautsríkjanna átta, auk Færeyja og Grænlands, og fulltrúar samtaka frumbyggja, verða í Hörpu. Í formennskutíð Íslands hefur verið lögð áhersla á hafið, loftslagsmál, umhverfisvæna orkugjafa, samfélög norðurslóða, og að styrkja Norðurskautsráðið sjálft. Yfirskrift formennskunnar var „Saman til sjálfbærni á norðurslóðum“. 

Rússar halda að líkindum áram á sömu braut en beina sérstaklega sjónum að menningu og tungumáli frumbyggja á norðurslóðum. Á fundinum í dag er búist við að ráðherrayfirlýsing ráðsins verði samþykkt, svonefnd Reykjavíkuryfirlýsing, og stefna þess til næstu tíu ára.