Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Innleiða nýja stefnu Norðurskautsráðsins

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins samþykkir í dag nýja stefnu ráðsins til ársins 2030. Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins hófst klukkan níu í morgun og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, flutti í upphafi fundarins ávarp þar sem hann ræddi formennsku Íslands síðustu tvö ár. Hann þakkaði hinum norðurskautsríkjunum fyrir stuðninginn við formennskuna og vinnuhópum ráðsins fyrir málefnavinnu og stefnumótun.

Guðlaugur rakti stuttlega verkefni síðustu tveggja ára og sagði að þrátt fyrir að vinna ráðsins hefði veitt ráðherrum leiðsögn í málefnum norðurslóða hefði vantað skýrari stefnu. Því hefði embættismannanefnd Norðurskautsráðsins mótað stefnu fyrir ráðið og samvinnuna fram til ársins 2030. Hún, ásamt ráðherrayfirlýsingu ráðsins, svokallaðri Reykjavíkuryfirlýsingu verður samþykkt á fundinum og Guðlaugur sagði skjölin leggja grunninn að vinnu ráðsins næstu áratugina. 

Í formennskutíð Íslands hefur verið lögð áhersla á hafið, loftslagsmál, umhverfisvæna orkugjafa, samfélög norðurslóða, og að styrkja Norðurskautsráðið sjálft. Yfirskrift formennskunnar var „Saman til sjálfbærni á norðurslóðum“.

Guðlaugur sagði formennskuna hafa verið óhefðbundna: „Við tókum við af Finnlandi árið 2019 og gátum ekki ímyndað okkur hvað koma skyldi. Heimsfaraldurinn setti svo sannarlega strik í reikninginn og flestir fundir hafa farið fram í fjarfundarbúnaði. Það hefur þó gengið vel,“ sagði hann.

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV