
Innleiða nýja stefnu Norðurskautsráðsins
Guðlaugur rakti stuttlega verkefni síðustu tveggja ára og sagði að þrátt fyrir að vinna ráðsins hefði veitt ráðherrum leiðsögn í málefnum norðurslóða hefði vantað skýrari stefnu. Því hefði embættismannanefnd Norðurskautsráðsins mótað stefnu fyrir ráðið og samvinnuna fram til ársins 2030. Hún, ásamt ráðherrayfirlýsingu ráðsins, svokallaðri Reykjavíkuryfirlýsingu verður samþykkt á fundinum og Guðlaugur sagði skjölin leggja grunninn að vinnu ráðsins næstu áratugina.
Í formennskutíð Íslands hefur verið lögð áhersla á hafið, loftslagsmál, umhverfisvæna orkugjafa, samfélög norðurslóða, og að styrkja Norðurskautsráðið sjálft. Yfirskrift formennskunnar var „Saman til sjálfbærni á norðurslóðum“.
Guðlaugur sagði formennskuna hafa verið óhefðbundna: „Við tókum við af Finnlandi árið 2019 og gátum ekki ímyndað okkur hvað koma skyldi. Heimsfaraldurinn setti svo sannarlega strik í reikninginn og flestir fundir hafa farið fram í fjarfundarbúnaði. Það hefur þó gengið vel,“ sagði hann.