Lavrov nefndi sérstaklega aukna viðveru Bandaríkjahers í Noregi og Grænlandi og gagnrýndi að Rússum hefði verið haldið utan við ráðstefnu um öryggismál á norðurslóðum. Hann kallaði eftir því að yfirmenn herafla norðurskautsríkjanna kæmu saman til fundar og vonaðist eftir því að hin ríkin tækju vel í tillöguna.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, svaraði ummælum Lavrovs nokkuð afdráttarlaust. Hann sagðist telja það skynsamlegt af stofnendum Norðurskautsráðsins að halda öryggis- og varnarmálum utan við ráðið: „Og mér finnst mikilvægt að við höldum því þannig.“ Hann sagði að það hefði mikið að segja fyrir velgengi í samskiptum ríkjanna innan ráðsins að öryggis- og varnarmál væru ekki hluti af því.
Mikill samhljómur var á meðal utanríkisráðherra norðurskautsríkjanna átta á ráðherrafundinum í morgun. Þar var meðal annars samþykkt svonefnd Reykjavíkuryfirlýsing, þar sem meðal annars er að finna það sem áunnist hefur í formennskutíð Íslands og vegvísir til framtíðar. Þá var samþykkt stefna ráðsins til næstu tíu ára.