Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fatlaðir og foreldrar fatlaðra of aftarlega í röðinni

Mynd: skjáskot / rúv
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, segir að fatlað fólk sé of aftarlega í bólusetningarröðinni. Fyrst nú nýlega liggi fyrir listi yfir þá foreldra fatlaðra barna sem fá forgang í bólusetningu. Þroskahjálp, Umhyggja og fleiri félög sem vinna að hagsmunum langveikra barna og fjölskyldna þeirra sendu áskorun til heilbrigðisyfirvalda í febrúar þar sem óskað var eftir forgangi. 

Bryndís segir í samtali við Morgunvaktina á Rás 1 að kórónuveirufaraldurinn hafi haft mikil áhrif á líf fatlaðs fólks. Foreldrar fatlaðra barna sem hafi mikla stuðningsþörf hafi í mörgum tilfellum þurft að taka að sér að veita börnunum alla þá þjónustu sem þau þurfa. Vinnustöðum, skólum og frístundaþjónustu hafi verið lokað. 

„Það er búið að vera gríðarlegt álag á þeim sjálfum og fjölskyldum þeirra,“ segir Bryndís.

Félög sem vinna að hagsmunum fatlaðra barna óskuðu því eftir forgangi foreldra í bólusetningu.

„Það er ennþá þannig að fjölskyldur fatlaðra barna og langveikra barna sem eru með miklar stuðningsþarfir eru ennþá í verndarsóttkví af því að þau hafa ekki fengið bólusetningu. Umhyggja hefur barist fyrir því að þessi hópur fái bólusetningu. Þetta hefur verið að velkjast í kerfinu. Ég fékk þær fréttir í gær að núna væru komnir einhverjir listar til heilsugæslunnar. Þannig að núna er ekkert að vanbúnaði. Vonandi fá þau bara bólusetningar helst í dag. Þessi hópur er búinn að loka sig af í verndarsóttkví,“ segir Bryndís.

Hún segir að þessi hópur hafi gleymst í faraldrinum. Umhyggja sendi fyrir tólf vikum áskorun til stjórnvalda um forgang foreldra langveikra barna í bólusetningu.

„Loksins er kominn listi yfir hópinn sem á að fá bólusetningu. Þannig að ég er að vona að þau fái bólusetningu á næstu dögum. En þetta er allt, allt of seint. Fólk á elliheimilum og hjúkrunarheimilum er búið að vera bólusett frá því í byrjun árs. Á meðan þessi hópur, sem er fólk sem er í blóma lífsins, ef við getum svo sagt, bæði börnin og væntanlega foreldrarnir líka, eru búnir að vera innilokaðir. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er leiðarstef að fatlað fólk eigi rétt að aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra. Ég lít alltaf svo á að við túlkum það þannig að sex ára barn á sama rétt hvort sem það er fatlað eða ófatlað,“ segir Bryndís.