Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

ASÍ segir laun hjá Play 30% lægri en hjá Icelandair

20.05.2021 - 22:00
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Forstjóri Play segir byrjunarlaun flugfreyja og þjóna hjá félaginu hærri en hjá Icelandair. Forseti ASÍ segir samanburð samninga þvert á móti sýna að launin hjá Play séu 30% lægri. 

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur hvatt til þess að fólk sniðgangi flugfélagið Play á grundvelli þess að laun flugfreyja og flugþjóna félagsins samkvæmt kjarasamningi við Íslenska flugstéttarfélagið séu rúmlega 40 þúsund krónum undir lágmarkslaunum. Birgir Jónsson forstjóri Play segir að sig hafi sett hljóðan við ályktun ASÍ og hann telur sambandið vinna með rangar upplýsingar. Hann segir að brugðist verði við.

„Við erum hérna með eina stærstu og virtustu hreyfingu verkafólks í landinu sem að hvetur alla sína félagsmenn og fjárfesta til að sniðganga félag sem er að skapa hundruð starfa í íslenskri ferðaþjónustu á sama tíma og það liggur fyrir að við erum með fullgilda kjarasamninga. Þetta getur valdið okkur stórskaða og að sjálfsögðu munum við leita réttar okkar.“

Birgir segir að reyndin sé sú að lægstu laun Play séu hærri en lægstu laun hjá Icelandair, föst laun séu rúmlega 350 þúsund krónur á mánuði óháð vinnuframlagi, í þeirri tölu séu grunnlaun, fastur aksturstyrkur og sölutrygging. Ofan á það bætist síðan álag, dagpeningar og fleira, þannig að í dæmigerðum mánuði væri flugfreyja eða þjónn í lægsta launaflokki sem væri að fljúga með um eða yfir 500 þúsund krónur í laun.  Drífa Snædal forseti ASÍ segir samanburð sambandsins á samningum ekki sýna þetta.

„Hvernig sem að við snúum þessu eða rýnum þetta þá fáum við ekki þessa útkomu. Við erum hins vegar búin að vera að bera saman laun hjá Play og Icelandair miðað við þá nauðasamninga sem voru gerðir við Icelandair síðast. bæði hjá nýliðum og þeim með 5 ára starfsreynslu og okkar niðurstaða er bara konsekvent, það er svona 30% munur á launum, það er að segja Play er töluvert lægri heldur en Icelandair í launum.“

Samkvæmt samanburði ASÍ munar um 40 þúsund krónum í föstum mánaðarlaun, Play í óhag, en sölulaun eða trygging eru hins vegar nærri helmingi hærri hjá Play. Miðað við þetta er ekki gert ráð fyrir yfirvinnu, álagi á hana og skópeningum hjá Play,  orlofsuppbótin er svipuð, en töluverðu munar á desemberuppbótinni  Icelandair í hag - og hjá Icelandair er gert gert ráð fyrir kaupauka en ekki hjá Play. Síðan bætast við aðrar greiðslur eins og bifreiðastyrkur sem er töluvert hærri hjá Icelandair. Þegar allt er lagt saman er niðurstaða ASÍ að byrjunarlaun hjá Play séu 30% lakari en hjá Icelandair.