Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aka börnum hundruð kílómetra á íþróttaæfingar

20.05.2021 - 16:19
default
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Sveitarstjórn Húnaþings vestra skorar á stjórnvöld að koma á fót sjóði sem styrkir minni sveitarfélög á landsbyggðinni til uppbyggingar íþróttamannvirkja. Sveitarstjórnarfulltrúi segir ótækt að það þurfi að keyra börn mörg hundruð kílómetra á æfingar.

Segir aðstöðuna ekki boðlega

Rætt var um aðstöðu barna til íþróttaiðkunar á landsbyggðinni í sveitarstjórn Húnaþings vestra í síðustu viku. Sveitarstjórnin telur að bilið á milli stærri þéttbýliskjarna og landsbyggðarinnar hafi aukist mikið á síðustu árum og minni sveitarfélög hafi hreinlega setið eftir þegar kemur að uppbyggingu á íþróttaaðstöðu. Magnús Vignir Eðvaldsson, sveitarstjórnarmaður, segir aðstöðuna í sveitarfélaginu ekki boðlega.

„Fólk er að flytja í burtu"

„Aðstaðan hjá okkur er mjög döpur, við erum að vinna í að bæta hana en hér er ekki aðstaða fyrir frjálsar íþróttir, hér er engin aðstaða við knattspyrnuvöll, hér erum við ekki með golfvöll og því miður mætti telja áfram. Við náttúrlega lendum bara í því hérna á minni stöðum eins og Hvammstanga að fólk er að flytja í burtu vegna aðstöðumunar við stærri þéttbýlisstaði," segir Magnús. 

200 kílómetra akstur

Hann segir dæmi þess að fólk keyri börn til Reykjavíkur á æfingar en það er um 200 kílómetra akstur. „Þetta er bara ákveðið byggðamál að það sé aðstaða á landsbyggðinni fyrir ungt fólk á öllum aldri. Það er náttúrlega ekki boðlegt að þurfa að keyra með börn mörg hundruð kílómetra á íþróttaæfingar til að komast í boðlega aðstöðu, fólk er að gera það hér."

Er þá verið að keyra börn á Sauðárkrók?

„Já aðstaðan þar er orðin sæmileg, þar er komin gervigrasvöllur. Ég er búinn að vera í því sjálfur að keyra dóttir mína þangað. Fólk er að keyra börn til Reykjavíkur á frjálsíþróttaæfingar."