Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Áfram þurrt og fólk brýnt til að gæta varkárni með eld

20.05.2021 - 09:42
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd/Kristinn Pétursson - RÚV
Austur-Skaftafellssýsla er nú á hættustigi vegna gróðurelda. Aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum brýnir fyrir fólki að fara varlega með eld utandyra. Fljótlegra sé að telja upp svæði þar sem hættustig gildir en ekki.

Þurrkatíð er áfram í kortunum og hættustig því óbreytt. Þótt rigni nokkuð í skúrum, líkt og gerðist suðvestanlands í gær, dugar það ekki til að bleyta í jarðveginum.

„Þótt það hafi blotnað ágætlega á höfuðborgarsvæðinu í gær, dugir það eitthvað fram á daginn í dag. Svo þornar allt upp og við erum komin á sama stað og áður,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, í samtali við fréttastofu. 

„Það er allt skraufþurrt og fyllsta ástæða til að fara varlega með allan eld. Slökkviliðisstjórar á þessum svæðum eru búnir að gefa út bann við opnum eldi.“

Rögnvaldur segir að næturkuldi undanfarið bæti ekki úr skák. Kuldinn verði til þess að gróður nái sér ekki á strik. Það hefur því líklega aldrei verið mikilvægara að fara sérstaklega varlega með eld á grónum svæðum. 

„Og við hvetjum fólk til að virða það. Þetta á líka við um sígarettustubba sem kastað er út úr bílum á ferð, eins og fólk gerir. Það getur sett af stað stórt bál.“ 

Rögnvaldur brýnir fyrir fólki að sleppa grillnotkun og notkun verkfæra sem hitna. Neistar og glóð geti borist langa leið með vindi og kveikt bál 

Hættustig er í gildi allt frá Norðvesturlandi, yfir Suðurland að Eyjafjöllum og frá Öræfum. „Það má eiginlega segja að fljótlegra sé að telja upp þann hluta landsins sem ekki er undir. Þetta eru mjög sérstakar aðstæður.“