Fram kemur í tillögu Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra, að list Ólafs sé á heimsmælikvarða og það séu tíðindi í sjálfu sér að verki sem endurvarpi regnboga sé fundinn staður í kirkju. „Fáar staðsetningar slíks verks eru meira afgerandi en kirkjuturn Hallgrímskirkju,“ segir í tillögu borgarstjóra.
Verkið muni á áhugaverðan hátt kallast á við regnbogalitina sem séu orðnir varanlegir neðst á Skólavörðustígnum og telur borgarstjóri að verkið styrki enn frekar Hallgrímskirkjuturn og Skólavörðuholt sem áhugaverðan áfangastað borgarbúa og gesta borgarinnar. Áætlaður kostnaður er um 110 milljónir.
Meirihluti borgarstjórnar segir í bókun sinni að árlega sæki um 1 til 1,5 milljón ferðamanna Hallgrímskirkju. Hún hafi verið táknmynd Reykjavíkur frá því hún var reist og hafi verið einn vinsælasti ferðamannastaður landsins undanfarin ár. „Táknmynd kirkjunnar og vinsældir hennar eru því ótvíræð. “
Tilgangurinn með verkinu sé að styrkja turn Hallgrímskirkju enn frekar sem áfangastað og segja hann í meira samhengi við nágrenni sitt með endurvarpi á regnboga úr kirkjuturninum. Reiknað er með að ríkið og aðrir aðilar komi að fjármögnun verksins.