Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Undirbúningur fyrir leiðtogafund Bidens og Pútíns

Mynd: RÚV/Arnar Þórisson / RÚV/Arnar Þórisson
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hlakkar til fundar, sem hann á við Sergei Lavrov síðar í kvöld. Hann sé undirbúningur fyrir mögulegan leiðtogafund Joe Bidens og Vladimir Pútíns. Blinken segist geta mælt með Íslandi sem fundarstað.

„Ég hlakka til að hitta utanríkisráðherrann, við höfum um margt að spjalla,“ sagði Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í viðtali við fréttastofu RÚV seinnipartinn í dag. 

„Það er líklegt að forsetar okkar hittist á næstu vikum og við viljum ræða um það. Að tryggja að hvor um sig skilji hvað þeir vilji ræða þegar þeir hittast. En af hálfu Bandaríkjanna get ég sagt þér að við myndum fagna því að hafa traust og fyrirsjáanleg tengsl við Rússa,“ segir Blinken. 

„Að standa í átökum þjónar ekki hagsmunum neins. Svo að ósk okkar snýst um ábyggileg og traust tengsl. Samtímis tökum við ætíð afstöðu með gildum og hagsmunum okkar ef af þeim er sótt á nokkurn hátt.“

Aðspurður um hvort fundur þeirra Lavrovs sé nokkurs konar æfing fyrir mögulegan fund Bidens og Pútíns segir Blinken svo vera. 

„Þegar af þessum fundum verður þarf undirbúningurinn að vera góður svo að þeir skili eins miklu og verða má. Og partur af skyldum mínum er að sjá til þess. Það verður eitt þeirra mála sem við ræðum,“ segir Blinken og segist gjarnan myndi mæla með Íslandi sem fundarstað, ef til leiðtogafundarins kemur. 

Brot úr viðtali við Antony Blinken má sjá í spilaranum hér að ofan. 

Viðtal við Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, verður sýnt á RÚV í kvöld klukkan 22.20.