Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Undirbúa málsókn vegna ógegnsærra vaxtaákvarðana

19.05.2021 - 07:28
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Neytendasamtökin hófu í dag herferð á vefsíðunni vaxtamálið.is til þess að vekja athygli á meintu ólögmæti skilmála og framkvæmdar á útlánum með breytilega vexti. Samtökin undirbúa málsókn á hendur þremur stærstu bönkunum Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum.

Ætlunin er að kanna lagagrundvöll fyrir húsnæðislánum bankanna á breytilegum vöxtum og skilmálum þeirra. 

Styrkt af Samtökum fjármálafyrirtækja og VR

Samtökin leita því nú að þremur málum til að reka gegn hverjum banka og ætla samtökin að greiða allan málskostnað. Bæði VR og Samtök fjármálafyritækja hafa styrkt verkefnið.

„Það sem við teljum vera ólöglegt við þessa skilmála er að þeir eru einhliða. Bankarnir og aðrar lánastofnanir geta einhliða breytt vöxtum án þess að þar liggi fyrir hlutlægir mælikvarðar sem farið er eftir. Það er hvoru tveggja farið eftir huglægum og hlutlægum mælikvörðum og það er eitthvað sem bæði Hæstiréttur og Evrópudómstóll hefur dæmt ólöglegt,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

Breki vísar þar í mál frá 2017 þegar Íslandsbanki var dæmdur  í Hæstarétti með þeim afleiðingum að greiða þurfti á þriðja þúsund lántaka um milljarð króna vegna þess að óheimilt var að breyta vöxtum skuldabréfa, þar sem ekki hafi verið tilgreint í skilmálum lánsins við hvaða aðstæður breyta mætti vöxtunum. „Þetta er eitthvað sem við teljum að eigi við um önnur lán með breytilegum vöxtum einnig.“

Hann segir einnig að spænskum bönkum hafi verið gert óheimilt af evrópskum dómstólum að nota sambærilega skilmála og tíðkast hér á landi.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV

Telur meint ólögmæti eiga við um 40 til 50 þúsund lán

Breki telur að þetta geti varðað allt að 40 til 50 þúsund lán sem geti numið allt að þrettán hundruð milljörðum króna.

Hann segir ógegnsætt hvernig vaxtaákvarðanir séu teknar núna og að ekki sé unnt að sannreyna það hvernig slíkar ákvarðanir séu teknar af lánveitendum.  

Sumir séu jafnvel með rekstrarafkomu bankans í skilmálum um vaxtaákvarðanir, „sem þeir geta sjálfir haft áhrif á sem er náttúrulega ferlega ósanngjarnt,“ segir Breki.

„Við leitum núna eftir þremur málum til að leggja fyrir dóm,“ en tilgangur vefsíðunnar Vaxtamálið er bæði að kalla eftir slíkum málum neytenda sem geti verið fordæmisgefandi og einnig til þess að lántakar skoði sína stöðu og tryggi það að kröfur um mögulega endurgreiðslu fyrnist ekki meðan málin eru háð fyrir dómi.

„Við vonumst til að knýja bankana til að breyta skilmálum sínum og varðar þetta mikla hagsmuni í framtíðinni, að það verði skýrt og skiljanlegt hvernig þeir taka ákvarðanir um vaxtabreytingar í framtíðinni.“ 

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV