Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun

Héraðsdómur Reykjavíkur
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Augustin Dufatanye í gær til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar fyrir nauðgun. Hann var jafnframt dæmdur til að greiða konunni sem hann nauðgaði 1,9 milljónir króna í miskabætur. Upplýsingar úr heilsuforriti konunnar reyndust mikilvægar við lausn málsins.

Augustin var sakfelldur fyrir að nauðga konu sem gat ekki varist sökum ölvunar og svefndrunga. Þau höfðu hist í miðbæ Reykjavíkur þar sem konan hafði verið með öðru fólki en varð viðskila við það. 

Konan vaknaði snemma morguns 21. mars 2019, klæðlítil í ókunnugri íbúð. Hún hringdi eftir leigubíl þegar hún komst að því hvar hún var og hraðaði sér heim. Sama dag fór hún á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota og gaf svo skýrslu hjá lögreglu.

Tvísaga um samskipti við konuna

Lögregla tók til við að rannsaka símagögn, upptökur úr öryggismyndavélum, upplýsingar frá leigubílastöð og gögn úr heilsuforriti sem konan var með. Þetta leiddi af sér betri mynd af ferðum konunnar og hvaða manni hún hefði verið í samskiptum við. Sá maður var handtekinn og tekinn til yfirheyrslu 12. apríl 2019. Þá neitaði hann í fyrstu að hafa verið í samskiptum við konuna og gat lítið sagt um ferðir sínar fyrr en honum voru sýndar myndir úr eftirlitsmyndavélum. Þá viðurkenndi hann að hafa verið í samskiptum við hana en neitaði því að nokkuð kynferðislegt hefði gerst á milli þeirra. Við seinni yfirheyrslu sagði konuna hafa haft munnmök við sig en ekki farið upp í íbúð hans. 

Upplýsingar úr heilsuforriti mikilvægar

Rannsókn lögreglu á hinum ýmsu gögnum gekk þvert gegn frásögn mannsins. Hann sagðist hafa gengið heim til sín ásamt konunni en að þau hefðu aldrei farið upp í íbúð hans á þriðju hæð. Upplýsingar úr heilsuforriti sem konan var með sýndu hins vegar að hún hefði gengið mun skemmri vegalengd en sem nam leiðinni heim til hans og að hún hefði farið upp um nokkrar hæðir. Jafnframt þótti ljóst að þau hefðu aðeins verið um sex mínútur á leiðinni, ekki 40 mínútur eins og maðurinn sagði, og því líklegast að þau hefðu farið á milli með bíl. 

Framburður mannsins þótti ekki stöðugur og sömu sögu var að segja um skýringar hans á breyttum framburði sínum. Jafnframt sýndu lífsýni að hann hefði haft mök við konuna, þrátt fyrir neitun hans. 

Framburður konunnar þótti hins vegar í meginatriðum skýr og einlægur að því marki sem hún mundi eftir atvikum. Þar á meðal var framburður hennar um að hafa vaknað um nóttina á ókunnugum stað með ákærða ofan á sér að hafa við sig samræði. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV