Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tekur viðarvöxtinn ár eða áratugi að ná fyrra horfi

Mynd: Gísli Einarsson / RÚV
Ár er síðan eldar geisuðu í Norðurárdal í Borgarfirði en áratugir líða þar til gróðurinn hefur jafnað sig að fullu. Hættustig almannavarna er enn í gildi á stórum hluta landsins vegna hættu á gróðureldum.

Jörðin í Norðurárdal er enn sviðin þar sem eldurinn brann fyrir ári og aska þyrlast upp hvar sem stungið er niður fæti. Þar kviknaði í síðdegis átjánda maí í fyrra en eldurinn var erfiður viðfangs í óárennilegu apalhrauninu. Tugir slökkviliðsmanna tóku þátt í aðgerðum sem stóðu fram eftir morgni. Fimmtán hektarar brunnu í Norðurárdal.

Botngróður tekur fyrst við sér

Ekki er vitað hvað olli brunanum. Hann var áfall fyrir lífríkið í hávöxnum birkiskóginum, en líf má þó finna inn á milli sviðinna trjástofna nú ári síðar.

„Þegar skógur brennur, eru sum trén þar sem hreinlega allur stofninn deyr. Sum þeirra eru þannig að það fara að vaxa teinungar aftur. Það tekur náttúrulega einhvern tíma fyrir allt, að koma þessi gróska aftur. Eins og viðarvöxturinn það tekur hann mörg ár og áratugi að verða aftur eins og hann var. En botngróðurinn, það var mikið að gerast strax í ágúst í fyrra,“ segir Járngerður Grétarsdóttir, gróðurvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. 

Hún segir það vera grös, blágresi, hvönn og fleira sem séu fyrst til að taka við sér. 

„Mosinn getur verið töluverðan tíma að koma aftur, en það verður hreinlega að koma í ljós hvernig þessu vindur fram.“ 

Hættustig enn í gildi vegna eldhættu

Hættustig almannavarna vegna hættu á gróðureldum er í gildi, allt frá Eyjafjöllum að Breiðafirði og eins á Norðurlandi vestra. Ekki er útlit fyrir að staðan breytist á næstu dögum - þótt skúrir gangi yfir dugir það ekki til og virðist sem úrkoma sem spáð er um hvítasunnu verði ónóg til þess að minnka hættuna. Enn gildir bann við opnum eldi. Frekari upplýsingar er hægt að nálgast á gróðureldar.is