Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sigrún hlýtur bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins

Mynd með færslu
 Mynd: Forlagið

Sigrún hlýtur bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins

19.05.2021 - 10:04

Höfundar

Sigrún Pálsdóttir fær bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins árið 2021 fyrir Delluferðina.

Tilkynnt var um verðlaunin við rafræna athöfn sem fram fór í gær. Delluferðin er skáldsaga, sem kom út árið 2019, og segir frá ungri íslenskri konu á 19. öld sem haldin er mikilli útþrá. Þegar hún fer af landi brott til New York upphefst mikið fjaðrafok sem hverfist að stóru leyti um forngrip sem hún tók með sér í ferðina.

Í rökstuðningi dómnefndarinnar segir meðal annars að Delluferðin sé skrifuð af listfengi höfundar sem hefur góð tök á bæði formi og stíl. „Frásögnin er knöpp, engu er ofaukið og hálfkveðnar vísur æsa upp lyst lesandans sem þarf að hafa sig allan við til þess að halda í við söguna sem rúllar áfram án afláts, nemur aldrei staðar, kemur sífellt á óvart og skýtur að lokum öllum væntingum um hefðbundin sögulok ref fyrir rass ... Skáldverkið er í senn frumlegt og nútímalegt en um leið afskaplega aðgengilegt og skemmtilegt.“

Á vef Rithöfundasambands Íslands má lesa rökstuðninginn í heild.

Bókmenntaverðlaunum Evrópusambandsins er ætlað að hampa framúrskarandi hæfileikafólki sem er að þreifa sig áfram á bókmenntavellinum. Alls hlutu 13 höfundar frá 13 mismunandi ríkjum verðlaunin í ár. Þátttökuríkin eru 41 talsins.

Sigrún Pálsdóttir er fjórði rithöfundurinn frá Íslandi sem hlýtur verðlaunin, áður hafa Hall­dóra K. Thorodd­sen, Odd­ný Eir Ævars­dótt­ir og Ófeig­ur Sig­urðsson hlotið þau.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Spaugileg delluferð til New York á nítjándu öld

Bókmenntir

Glímt við inngöngu íslensku þjóðarinnar inn í nútímann

Bókmenntir

„Það er blygðunarlaus plottgleði í þessari bók“

Bókmenntir

Halldóra hlýtur bókmenntaverðlaun ESB