Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Palestínskt ríki eina ásættanlega niðurstaðan

epa09090289 (FILE) - Saudi Foreign Minister Faisal bin Farhan Al-Saud gives a a joint press statement with the German Foreign Minister at the German Foreign Office in Berlin, Germany, 21 February 2020 (reissued 22 March 2021). Saudi Arabia on 22 March 2021 announced it was offering a ceasefire initiative to Yemen's Houthis. The move comes following a string of Houthi drone attacks on Saudi infrastructure. A Saudi-led coalition has been fighting Houthi rebels since March 2015.  EPA-EFE/HAYOUNG JEON
 Mynd: EPA
Faisal bin Farhan, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, segir átökin fyrir botni Miðjarðarhafs beina Miðausturlöndum í ranga átt. Hann segir í samtali við AFP fréttastofuna að loftárásir Ísraela og flugskeytaárásir Hamas-liða geri allar friðarumleitanir erfiðari og þær efli öfgahópa á svæðinu.

Hann segir alla verða að vinna saman að því að hvetja ríkin til þess að stöðva árásirnar og hefja svo alvöru friðarviðræður. Slíkar viðræður verði að vera endanlegar, og eina ásættanlega niðurstaðan sé palestínskt ríki þar sem Austur-Jerúsalem er höfuðborgin, hefur AFP eftir bin Farhan. 

Ákall alþjóðasamfélagsins um vopnahlé verður sífellt háværara. Frakkar lögðu fram tilskipun í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í kvöld þar sem vopnahlés er krafist. Tilskipunin er unnin í samráði við Egypta og Jórdana. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, virðist hins vegar ekki reiðubúinn að leggja niður vopn, því fyrr í dag sagði hann að Ísraelar haldi árásum sínum á Gaza áfram eins lengi og nauðsyn krefur.

217 Palestínumenn hafa fallið í loftárásum Ísraelsmanna á Gaza, þar á meðal 63 börn. Yfir 1.400 hafa særst og 72 þúsund hafa þurft að flýja heimili sín. Tólf eru látnir af völdum flugskeytaárása Hamas.