Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Óvíst hvort takist að halda hernaði utan ráðsins

19.05.2021 - 11:17
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Utanríkisráðherra Rússa kemur til landsins síðdegis. Hann á fund í Hörpu í kvöld með bandarískum kollega sínum, en það er þeirra fyrsti fundur augliti til auglitis. Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra Íslands í Rússlandi, segir Rússa ósátta með aukna sókn Bandaríkjahers á norðurslóðir. Pólitískum deilum verði líklega haldið utan við fund Norðurskautsráðsins á morgun en nú reyni á hvort það takist áfram að halda þeim og hernaðarlegum málefnum utan ráðsins.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, kemur til landsins síðdegis í dag en hann á fund með Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í kvöld. Töluverð spenna er fyrir fundinum og áhugi alþjóðlegra fjölmiðla mikill en töluverður fjöldi bæði rússneskra og bandarískra fjölmiðlamanna eru á landinu til að fylgjast með fundinum, sem er þeirra fyrsti augliti til auglitis. 

Blinken tók við snemma á nýju ári en nokkura daga vera hans hér á landi er til marks um aukinn áhuga Bandaríkjastjórnar á norðurslóðum. Hann fór fyrst til Danmerkur, verður hér í þrjá daga og fer síðan til Grænlands. Nokkur átök eru um yfirráð yfir norðursheimskautssvæðinu og Rússar sendu skýr skilaboð í vikunni um að aðrir ættu að hafa sig hæga.

Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra í Rússlandi, segir að Rússar hafi mestra hagsmuna að gæta á svæðinu, sér í lagi þegar kemur að vinnslu olíu og gass. „Norðurslóðir og þróun þessara auðlinda og vinnsla þeirra þetta er lykilforsenda í öllum væntingum um hagþróun í Rússlandi á næstu árum og áratugum, skiptir alveg feykilega miklu efnahagslegu máli og þar af leiðir hafa Rússar mikinn hag af því að ákveðinn stöðugleiki ríki á norðurslóðum og það er ein ástæða þess að Norðurskautsráðið hefur fúnkerað alveg ljómandi vel þrátt fyrir stirð samskipti að öðru leyti, jafnvel eftir Úkraínudeiluna sem hófst fyrir sjö árum, allan tímann hefur norðurskautsráðið fúnkerað vel,“ sagði Albert á Morgunvaktinni á Rás1 í morgun. 

Albert segir að samskipti Rússa og Bandaríkjanna hafi verið stirð síðustu ár og líklegt að pólitískar deilur verði ræddar á fundi Lavrovs og Blinkens, en haldið utan við fund Norðurskautsráðsins. Þar verði umhverfis- og loftslagsmál mest áberandi. „Þar sem þeir eru að láta þessa auknu sókn Bandaríkjahers inn á norðurslóðir fara í taugarnar á sér og þess vegna er hugsanlegt að það að halda hernaðarlegum málefnum utan við starfsemi ráðsins og halda norðurslóðum sem lágspennusvæði eins og það er kallað, það er hugsanlegt að það fari að reyna á það.“ 

Utanríkisráðherrar streyma nú til landsins á fund Norðurskautsráðsins sem verður í Hörpu á morgun. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hittir í dag utanríkisráðherra Kanada, Finnlands og Svíþjóðar í aðdraganda fundarins á morgun. 

 

Mynd: Utanríkisráðuneytið / RÚV
Guðlaugur Þór hitti utanríkisráðherra Kanada í Hörpu í morgun.