Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Knattspyrnukonur með töluvert lægri laun en karlar

19.05.2021 - 16:22
Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú
Konur sem spila knattspyrnu í efstu deildum á Íslandi hafa marktækt lægri tekjur á mánuði en karlkyns kollegar þeirra. Algengt er að konur í íþróttinni fái á bilinu 1.000-50.000 krónur í tekjur á mánuði. Karlmenn efstu deildum í knattspyrnu fá flestir á bilinu 100.000-200.000 krónur á mánuði.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Helenu Jónsdóttur, meistaranema í íþróttavísindum við Háskólann í Reykjavík.

Töluvert hallar á launakjör kvenna innan knattspyrnufélaga. Um 60% kvenkyns þátttakenda í rannsókninni fá ekki greidd nein laun. Það sama gildir um 36% karlkyns þátttakenda.

Einnig benda niðurstöður til ójafns kynjahlutfalls í formennsku félaganna. „Af þessum 15 félögum sem tóku þátt, voru 14 þeirra með karlkyns formann, en aðeins eitt með kvenkyns formann,“ sagði Helena.

Í rannsókninni eru bornar saman launagreiðslur til íþróttafólks í efstu deildum í fótbolta, handbolta og körfubolta. Þetta er í fyrsta sinn sem slík rannsókn er framkvæmd hérlendis. Ekki mældist marktækur munur á launum kynjanna í körfubolta- eða handboltadeildum.

Höfundur er meistaranemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands, í starfsnámi á fréttastofu RÚV.