Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Höfum dregist aftur úr miðað við önnur sveitarfélög“

19.05.2021 - 14:40
Mynd: RÚV / RÚV
Forráðamenn Þórs og KA á Akureyri segja félögin hafa dregist verulega aftur úr félögum á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að aðstöðumálum. Framkvæmdarstjóri Þórs segir umræðuna viðkvæma og kveðst hafa verið tekinn á teppið fyrir að tjá sig opinberlega um málið í fjölmiðlum.

Knattspyrnuliðin á hrakhólum

Vorið hefur verið kalt á Norðurlandi og knattspyrnuvellir á Akureyri hafa komið illa undan vetri. Það hefur haft áhrif á liðin í bænum sem hafa neyðst til þess að leika innandyra eða í öðrum bæjarfélögum. Reimar Helgason, framkvæmdarstjóri Þórs og Siguróli Magni Sigurðsson, íþróttafulltrúi KA voru gestir á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun þar sem aðstöðumál á Akureyri voru rædd. Þeir voru sammála um að víða mætti taka til hendinni. 

Karlalið KA sem leikur í efstu deild karla hefur leikið heimaleiki sína á Dalvíkurvelli í vor. Siguróli segir ekki víst hvenær hægt verði að leika á Greifavelli, sem áður hét Akureyrarvöllur. „Við vitum ekki hvenær við getum lofað að það verði fótbolti á Greifavelli, því að hann kemur mjög illa undan vetri og ekki var hann góður fyrir. Hann er mjög ósléttur og undanfarin ár höfum við verið að hrækja í sárin.“ 

Segja aðstöðuna ekki boðlega

Reimar segir aðstæður karlaliðs Þórs og kvennaliðs Þórs/KA vera svipað.  „Salt Pay-völlurinn okkar er ekki klár, þó að við séum með hita í honum og við höfum þurft að spila inni í Boganum. Það er allavega vika eða tvær í völlinn okkar þó hann sé góður þegar hann er klár en við stjórnum ekki veðrinu, því miður. 

Þrátt fyrir kulda og slæma tíð þá hafa margir bent á að aðstaðan sé þrátt fyrir allt ekki boðleg, getið þið tekið undir það?

„Já, ég get tekið undir það og ég er viss um að Reimar sé sammála mér. Við KA menn höfum verið á undanþágu mörg undanfarin ár vegna aðstöðunnar á vellinum og vorum komnir með þá undanþágu aftur en okkur sárvantar nýjan keppnisvöll,“ segir Siguróli. 

Langt á eftir félögum í Reykjavík

Þeir nefna báðir að aðstæður á Akureyri séu ekki á pari við þau félög sem liðin bera sig saman við á Höfuðborgarsvæðinu. „Eins og á Suðurlandi og Reykjavík. Bara aðstaða félaganna, þegar maður fer þangað þá finnst manni þetta vera rosa munur sem að þau eru að taka fram úr okkur í aðstöðumálum sem er stórhættulegt. Mér finnst skorta stefnu og ef hún er til staðar þá  þarf að fylgja henni nógu fast eftir,“ segir Reimar. 

KA og Akureyrarbær skrifuðu nýverið undir viljayfirlýsingu um framtíðaruppbyggingu á félagssvæði KA. Siguróli segir KA menn þakkláta fyrir það en það sé þó víða pottur brotinn. „Við höfum dregist aftur úr miðað við önnur sveitarfélög.“

Bærinn forgangsraðaði verkefnum

Starfshópur um nýframkvæmdir íþróttamannvirkja Akureyrarbæjar lagði árið 2019 fram tillögur að forgangsröðun í uppbyggingu næstu 15 árin. Þar var 11 verkefnum forgangsraðað eftir mikilvægi. Reimar segir Þórsara mjög ósátta við þann lista. Félagið hafi fljótlega dregið sig úr því samstarfi. „Við létum nú vita fljótlega að við segðum okkur frá þeirri vinnu eða taka hana í fangið. Því okkur var gefinn duglega puttinn þar og óskiljanlegt hvað menn fóru langt með það án þess að kafa dýpra í það.“

Siguróli fagnar skýrslunni en segir hana vissulega hafa komið betur út fyrir KA heldur en Þór. Við vorum þarna ofarlega á lista með uppbyggingu knattspyrnuvallar og félagsaðstöðu. „Við hefðum vilja fá fleiri atriði í þennan lista fyrir KA. Við vorum samt ánægðir með að bærinn tæki af skarið og færi í þessa vinnu. Þó að við Reimar séum ósammála um hversu vel hún var unnin að þá teljum við að það hafi alla veganna komið forgangsröðin fram sem bærinn sé að vinna eftir. Við teljum að röðin sé komin að KA og sú vinna er að fara af stað og við vonum það besta.“

Tekinn á teppið fyrir að tjá sig um málið

Reimar segir mikilvægt að passa sig í umræðunni því hagsmunamál sem sett eru fram geti fallið í grýttan jarðveg. „Maður verður nú að passa að nöldra ekki of mikið. Ég læt nú ekki hafa mikið eftir mér en það hringdi góður blaðamaður í síðustu viku sem varð að blaðagrein í Fréttablaðinu. Á föstudaginn var ég kallaður á teppið, eins og hjá skólastjóranum af forráðamönnum íþróttamála í bænum sem voru ekki sammála eða ósáttir við hvernig ég setti fram skipulagsmálin og hvað við þyrftum. Mér fannst það mjög sérstakur fundur.“

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Þórsvöllur fyrr í vetur