Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hækka vexti til að hamla gegn verðbólgu

19.05.2021 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Seðlabankinn hækkaði vexti í morgun í fyrsta sínn síðan haustið 2018. Seðlabankastjóri segir þetta gert til að vinna gegn þrálátri verðbólgu. Bankinn gerir ráð fyrir meiri hagvexti á þessu ári og því næsta en áður.

Þetta þýðir að vextirnir núna eru 1%. Þetta er fyrsta vaxtahækkun bankans síðan í nóvember 2018.

„Það er vegna þess að verðbólgan hefur verið aðeins hærri en við höfðum spáð eða búist við og við þurfum að bregðast við. Þetta líka sýnir það að það sem við gerðum á síðasta ári það er að virka mjög vel. Við tókum vextina niður í 0,75 punkta og það er að örva kerfið mjög, mjög mikið og við ákvaðum að reyna að tempra þetta aðeins með því að hækka vextina um 0,25 punkta,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

Hann vonar að þetta verði til að hægja á fasteignamarkaðnum og fólk slái síður lán til að fjármagna einkaneyslu og fleira. Þá sé þetta liður í því að efnahagslífið taki við sér eftir því sem tök heimsfaraldursins linast. Ásgeir segir að vel geti verið að þetta sé fyrsta vaxtahækkunin af fleirum og þetta sýni að bankinn meti bata í hagkerfinu og bendir á að eins prósents vextir séu mjög lágir. Margir hafa tekið óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum undanfarið og viðbúið að þau hækki. Rótin að verðbólgunni er lægra gengi, hærri laun, hærra olíuverð og meiri kostnaður við aðföng og flutninga og heimshagkerfið höktir í kjölfar kórónuveirufaraldursins, segir seðlabankastjóri. Þetta sé tímabundið ástand og verðbólgan væntanlega lækki í haust. Efnahagsbatinn á seinni hluta síðasta árs var kröftugri en spáð var og samkvæmt nýrri þjóðhagsspá eru horfur á liðlega 3% þriggja prósenta hagvexti á þessu ári og yfir 5% á því næsta, sem eru betri horfur en spáð var.

„Peningastefnan okkar hefur verið að virka miklu betur en við sjálf bjuggumst við.“

Seðlabankinn spáir að ferðaþjónustan taki hægar við sér en spáð var meðal annars vegna þess að bólusetning hafi gengið hægar en ráð var fyrir gert, þótt atvinnuleysi sé mjög mikið eigi eftir að draga úr því og það dragi úr hækkunum á fasteignamarkaði.

„Fasteignamarkaðurinn þarf aðeins að fara að slaka á þetta er komið út í dálítið mikinn ofsa þar.“

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV