Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fundur Lavros og Blinkens í Hörpu

19.05.2021 - 20:48
Mynd: Skjáskot / RÚV
Utanríkisráðherrar Rússlands og Bandaríkjanna hittast í fyrsta sinn augliti til auglitis í Hörpu í kvöld. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, kom til landsins undir kvöld en bæði hann og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, taka þátt í fundi Norðurskautsráðsins á morgun. Búist er við að þeir flytji hvor um sig stutta yfirlýsingu fyrir fundinn sem á að hefjast um klukkan níu.

Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra Íslands í Rússlandi og í Bandaríkjunum, segir að pólitískum deilumálum verði líklega haldið utan við fund Norðurskautsráðsins en þau verði líklega rætt á fundi Lavrovs og Blinkens. Hann segir Rússa ósátta með aukna sókn Bandaríkjahers á norðurslóðir og á morgun reyni á hvort það takist áfram að halda pólitískum deilumálum og hernaðarlegum málefnum utan ráðsins.

Upptaka af upphafsorðum ráðherranna er aðgengileg hér að ofan. Frétt um það sem þeir sögðu má nálgast hér.