Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Eldgosið tveggja mánaða og tvöfalt stærra en í upphafi

19.05.2021 - 12:41
Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Atli Magnússon - RÚV/Landinn
Í dag hefur eldgosið við Fagradalsfjall staðið yfir í tvo mánuði. Síðustu tvær vikur hefur hraunflæði verið tvöfalt meira en það var að meðaltali fyrstu sex vikurnar. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir óvenjulegt að hraunflæðið aukist svo mjög með tímanum. 

„Þetta eru náttúrulega tímamót núna, eða lítið afmæli. Þetta gos hefur hegðað sér að mörgu leyti öðruvísi en flest gos sem við höfum séð. Það byrjaði rólega, en er svo sem ekkert órólegt núna, en er núna tvöfalt stærra en það var í upphafi, það kemur tvöfalt meira upp,“ segir Magnús Tumi.

Skiptir gosinu í þrjú tímabil

Hann skiptir gostímanum í þrjú tímabil: „Fyrstu tvær vikurnar var þetta frekar stöðugt og aðeins minnkandi ef eitthvað var. Síðan kom annað tímabil þar sem það vissi ekki alveg hvar það ætti að vera og var að búa sér til nýja gíga í svona tvær vikur. Og svo síðustu fimm vikurnar, það er þriðja tímabilið, þá hefur gosið úr þessum eina gíg sem nú er alls ráðandi og á því tímabili hefur gosið heldur vaxið. Nú er það tvöfalt stærra en það var fyrstu vikurnar.“

Meðalhraunrennslið yfir tímabilið 11.-18. maí er 11 m3/s, samkvæmt mælingum Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Hraunrennslið er aðeins minna en vikuna á undan en að teknu tilliti til óvissu í mælingum er munurinn ekki marktækur. Síðustu tvær vikur hefur gosið því verið tvöfalt öflugra en það var að meðaltali fyrstu sex vikurnar. Hraunið mælist nú 38,3 milljón rúmmetrar og flatarmálið 2,06 ferkílómetrar.

Gæti vel haldið áfram í nokkra mánuði

Það að hraunflæðið hafi aukist, gefur það ykkur forsendur til að spá um framhaldið?

„Það er mjög erfitt að spá um framhaldið. Ef maður skoðar gosmyndanir á svæðinu þá eru þær flestar litlar. Þær eru svipaðar eða minni en þegar er orðið í Fagradalsfjalli núna. Þegar við skoðum myndanir frá jökultíma eru þær flestar ekki stórar. Þó eru þarna tvær mjög stórar myndanir: Það er Fagradalsfjallið sjálft og síðan Þráinsskjöldur sem eru mjög stórar.“ 

Það geti þó haft eitthvað að segja að gosið hafi haldið áfram í þó þennan tíma: „Það er tilhneiging þegar gos er búið að standa í ákveðinn tíma, þá vill teygjast á því. Þannig að það er ekkert ólíklegt að þetta haldi áfram í alla vega einhverja mánuði. Hins vegar er staðreynd að það veit enginn hversu lengi þetta er því að það eru mörg þúsund ár síðan gaus þarna síðast. Það er miklu erfiðara að spá fyrir um goshegðun á svona stað heldur en til dæmis í Heklu eða Grímsvötnum sem gjósa oft,“ segir Magnús Tumi.