Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Einn úr Gagnamagninu með COVID-19 smit

Mynd með færslu
 Mynd: Andres Putting - EBU
Einn úr Gagnamagninu hefur greinst með COVID-19. Þetta kom í ljós þegar átta úr íslenska hópnum voru skimaðir fyrir veirunni í morgun. Þar með er ólíklegt að Daði og Gagnamagnið taki þátt í æfingunni í kvöld og litlar líkur á að sveitin stígi á svið í beinni útsendingu annað kvöld. Líklega verði að nota upptöku. Óvíst er hvort Daði og Gagnamagnið geta tekið þátt í úrslitakvöldinu á laugardag komist lagið áfram.

Rúnar Freyr Gíslason, fjölmiðlafulltrúi íslenska hópsins, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Hann segir að upptakan, sem að öllum líkindum verður notuð, sé frá æfingu í síðustu viku. „Þetta er mikið högg.“ 

Tveir úr íslenska hópnum eru í einangrun með staðfest smit. Umfangsmiklar skimanir hófust eftir að einn úr pólska hópnum greindist með COVID-19 en Pólland, Ísland, Malta og Rúmenía eru öll á sama hótelinu. Daginn eftir kom í ljós að einn úr íslenska hópnum væri smitaður en sá var ekki hluti af atriðinu. 

Í morgun fóru síðan átta í skimun fyrir veirunni og þá kom í ljós að einn úr Gagnamagninu er með COVID-19. Rúnar Freyr vill ekki spá of miklu um framhaldið en ljóst er að ef Ísland kemst áfram í sínum undanriðli annað kvöld er þátttaka hópsins á laugardagskvöld í töluverðri hættu. 

Íslenski hópurinn var bólusettur með bóluefni Janssen skömmu áður en hann hélt út til Rotterdam. Bóluefni veita ekki hundrað prósent vörn gegn veirunni en geta dregið verulega úr veikindum af völdum sýkingarinnar.

Ekki á af þátttöku Daða og Gagnamagnsins í Eurovision að ganga. Í fyrra þótti lag þeirra Think about Thinks sigurstranglegt í keppninni en henni var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins. Og nú sitja þau í sóttkví í Rotterdam vegna smits.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV