Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bjartsýnn á samþykki í öllum sveitarfélögum

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Lagt er til að níu fulltrúar skipi sveitarstjórn í nýju sameinuðu sveitarfélagi í Austur-Húnavatnssýslu. Sveitarstjórinn í Blönduósbæ segir að undirtektir íbúa séu betri en nokkru sinni fyrr. Kosið verður um sameiningu fimmta júní.

Kosið 5. júní

Unnið hefur verið að sameiningu í Austur-Húnavatnssýslu frá 2017. Þar eru sveitarfélögin Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Skagabyggð og Skagaströnd. Kosið verður um sameiningu fimmta júní og er utankjörfundaratkvæðagreiðsla þegar hafin. Nokkuð hefur verið tekist á um hvar stjórnsýsla í nýju sveitarfélagi eigi að vera og á endanum var lagt til að henni yrði skipt á milli Blönduóss og Skagastrandar.

Níu fulltrúar í sveitarstjórn

Í tillögu samstarfsnefndar, sem kynnt var í gær, er lagt til að níu fulltrúar verði í sveitarstjórn. Þar er einnig gert ráð fyrir að aðalstarfsstöð stjórnsýslu- og fjármálasviðs, þróunarsviðs og hafnarmála verði á Skagaströnd en velferðarsvið og framkvæmdasvið á Blönduósi, ásamt skipulags- og byggingafulltrúa og slökkviliðsstjóra. Sveitarstjóri mun svo hafa starfsstöð á báðum stöðum. Valdimar Hermannsson er vongóður um að sátt náist um þessar tillögur. 

Góðar undirtektir á íbúafundi

„Já það var nú fyrsti raunverulegi íbúafundurinn í gær úti á Skagaströnd og það voru vissulega skiptar skoðanir en góðar undirtektir varðandi stjórnsýslu fyrirkomulagið," segir Valdimar.

Nú er stutt í kosningar, hvernig finnst þér hljóðið íbúum um þessi mál og hvernig er útlitið?

„Jú ég er alla vega bjartsýnn á að þetta verði samþykkt í öllum sveitarfélögunum, þannig að ég held nú að þetta hafist."

En nú hefur þetta verið rætt og reynt áður, finnst þér annað hljóð núna en áður?

„Já ég held að það sé skilningur á því að þróunin sé í þessa átt."

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður K. Þórisson
Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Skagabyggð og Skagaströnd