Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Áætlun um framkvæmdir við Fossvogsskóla ekki tilbúin

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Ekki liggur enn fyrir tímasett áætlun um framkvæmdir við Fossvogsskóla. Kennsla var flutt þaðan í Kelduskóla, sem einnig gengur undir heitinu Korpuskóli, í marslok eftir langvarandi viðureign við myglu og sveppagró.

Verkfræðistofan EFLA vinnur að skýrslu um ástand skólans, sem enn er ekki tilbúin, að sögn Helga Grímssonar, forstöðumanns skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, sérfræðingur hjá EFLU, segir að verið sé að leggja lokahönd á skýrsluna en það sé á höndum Reykjavíkurborgar að kynna niðurstöðurnar. 

Því sé ekki enn hægt að taka ákvarðanir um framkvæmdir. Þær byggist á niðurstöðum vinnuhóps sem stýrt er af Umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar.

Myglu varð fyrst vart í Fossvogsskóla fyrir rúmum tveimur árum og hann var rýmdur í ársbyrjun 2019. Þá var til framkvæmdaáætlun og var þegar hafist handa við að takast á við mygluna. 

Fljótlega varð myglu vart að nýju og kröfðust foreldrar þess að skólahúsið yrði rýmt enda hefði ástand þess leitt til mikilla veikinda meðal nemenda. Gripið var til ýmissa ráðstafana til að ráða niðurlögum myglunnar án endanlegs árangurs. 

Því var skólinn rýmdur að nýju og 350 nemendur hans fluttir um set.