Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja breyta lánasamningum til að létta á skuldabyrði

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Til greina kemur að ríkið breyti hluta af lánum til Vaðlaheiðarganga í hlutafé. Viðræður Vaðlaheiðarganga og ríkisins vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar ganganna standa nú yfir.

Viðræður staðið yfir lengi

Með viðræðunum sem nú standa yfir er stefnt að því að breyta skilmálum í lánasamningum til að létta á skuldabyrði félagsins. Hilmar Gunnlaugsson, stjórnarformaður ganganna segir að samtalið við ríkið gangi vel. „Menn eru auðvitað eru bara að horfa á við erum með vexti og vaxtakjör sem var samið um fyrir nokkuð löngu síðan og síðan hafa vaxtakjör gjörbreyst í samfélaginu þannig að þetta snýst auðvitað um hver þau eiga að vera og bara einnig hvernig menn horfa til framtíðar með þetta félag," segir Hilmar.

Skuldir á gjalddaga 1. júní

Ríkissjóður fer með 33 prósenta hlut í göngunum en félagið Greið leið ehf., sem er í eigu sveitarfélaganna á Norðurlandi eystra, með 66 prósenta hlut. Eyþór Björnsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, segir í samtali við fréttastofu að stefnt sé að því að klára viðræður við ríkið um mánaðarmót. Þá eru skuldir ganganna á gjalddaga. Stjórnarformaðurinn segir að viðræður hafi staðið lengi. 

„Við sendum bréf fyrir ári síðan og störtuðum þessu samtali, í byrjun covid og þá vissum við alveg að covid myndi hafa mikil áhrif en vissum ekki hversu mikil og menn hafa bara verið í þessu samtali síðan," segir Hilmar. 

Tekjutap vegna Covid

Upphaflega var reiknað með að göngin myndu kosta um 9 milljarða en þau enduðu í tæpum sautján. Því hefur fjármagnskostnaður vegna framkvæmda haft mikil áhrif. Þá hefur samdráttur vegna Covid haft sitt að segja. „Ég meina, tekjutap, auðvitað má segja að síðastliðið ár, þá er það covid, ef við hofum á fyrsta rekstrarár og síðan í fyrra en að öðru leyti myndi ég segja að við séum ekkert að upplifa neitt tekjutap núna, þvert á móti er veruleg aukning miðað við árið í fyrra, eðlilega."