„Þú ert ekkert heimskari fyrir að sýna líkamann þinn“

Mynd: Edda Falak / Facebook

„Þú ert ekkert heimskari fyrir að sýna líkamann þinn“

18.05.2021 - 10:48

Höfundar

„Við viljum að viðbrögðin við myndbandinu séu tækluð þannig að #metoo-bylgjan sé að virka,“ segir Edda Falak, áhrifavaldur og viðskiptafræðingur. Umdeilt myndband sem hún gerði fyrir hlaðvarp sitt, Eigin konur, var tekið úr birtingu eftir ábendingu um að tveir þátttakendur í því hefðu farið yfir mörk kvenna. Það hefur nú verið endurbirt án þessara tveggja.

Viðskiptafræðingurinn og Crossfit-kempan Edda Falak er einn helsti áhrifavaldur landsins. Hún stýrir geysivinsælu og umdeildu hlaðvarpi ásamt Fjólu Sigurðardóttur, sem nefnist Eigin konur, og er mikil baráttukona og femínisti. Edda settist niður með Hafdísi Helgu Helgadóttur og sagði frá uppeldinu, móðurmissinum, gagnrýninni og aktívismanum sem hún hefur staðið í um árabil.

Missa mömmu á viðkvæmum aldri

Edda er fædd á Ítalíu. Móðir hennar var íslensk en faðir hennar er líbanskur. Þegar Edda var tveggja ára flutti hún til Íslands og hefur haft rætur hér á landi síðan. Hún hefur litla tengingu við Líbanon en hefur komið þangað. „Það er mjög fallegt þar, og ákveðin upplifun,“ lýsir hún.

Edda á einn yngri bróður sem einnig stundar líkamsrækt af kappi og rekur fyrirtæki. Edda segir að ástæðuna fyrir framtaksseminni megi mögulega rekja til móðurmissis systkinanna. Þegar móðir þeirra lést var Edda á fermingaraldri en bróðir hennar tíu ára. „Við missum mömmu á viðkvæmum aldri og förum á fullt í íþróttir á þeim tíma. Kannski er þetta einhver leið til að dreifa huganum, svo við fórum all in í íþróttir.“

Sambandið við föður Eddu, sem býr á Íslandi, er fínt að hennar sögn en að einhverju leyti einkennist það af menningarmun. „Við erum ótrúlega íslensk og hann er svo líbanskur og ítalskur og það er allt önnur menning,“ segir hún.

Birti myndir af sér á bikiníi á meðan hún gegndi virtri stöðu

Eftir að hafa útskrifast með gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands flutti Edda til Kaupmannahafnar þar sem hún fór í framhaldsnám. Það má segja að baráttukonan í Eddu hafi eflst mikið í því umhverfi sem hún lifði í og hrærðist í viðskiptalífinu þar.

Hún var ein af fáum konum í náminu, og stuttu eftir að hún lauk námi fékk hún vinnu í fjármáladeild í stóru fyrirtæki. Á sama tíma fór hún að birta myndir á samfélagsmiðlum sem vöktu umtal, þar sem þær sýndu hana fáklædda. „Ég geri stelpulega hluti á Instagram, pósta myndum af mér á bikiníinu og geri alls konar fimleika og er fáklædd, á sama tíma og ég er í virtri stöðu í fjármálafyrirtæki.“

Sagt að klæða sig öðruvísi til að vera tekin alvarlega

Það leið ekki á löngu fyrr en hún fór að fá þau skilaboð að hún gæti ekki gert hvort tveggja. „Þú getur ekki verið með mikilvæga kúnna þar sem þú ert að treida hlutabréfum á meðan þú ert á Instagram á bikiníinu,“ virtist vera álit margra.

Á fundum í vinnunni fann hún gjarnan að síður var hlustað á hana og skoðanir hennar þóttu ekki hafa sama vægi og annarra. Eins var henni bent á að hún þyrfti að klæða sig öðruvísi en henni var tamt til að vera tekin alvarlega. Þessi skilaboð fóru öfugt ofan í Eddu sem mótmælti. „Það fauk í mig því mig langaði að gera bæði.“

Engin lítillækkun að birta sjálfsmyndir á bikiníi

Edda tjáði skoðanir sínar á óréttlætinu meðal annars á Instagram þar sem hún fann fyrir miklum stuðningi annarra kvenna. „Þannig byrjaði þetta,“ segir Edda.

Baráttan snýst meðal annars um virðingu fyrir líkamanum, og öllum líkömum samkvæmt Eddu. „Þú getur gert bæði og þú ert ekki að lítillækka þig með því að birta mynd af þér á bikiníinu.“ Hún sagði starfi sínu hjá fyrirtækinu lausu og flutti heim til Íslands í júlí 2020.

Hér á landi hélt hún aktívismanum áfram og fann mikinn meðbyr. Edda vakti mikla athygli og fylgjendum hennar fjölgaði ört. Konur sem taka undir málstað hennar byrja fljótlega að birta myndir af sér fáklæddum, undir myllumerki sem Edda smíðaði, til að sýna fram á að það sé engin skömm í því að sýna hold og að enginn eigi skilið minni virðingu fyrir vikið.

Kærastar að banna stelpum að birta myndir af sér fáklæddum

Ýmsir angar uxu út frá þeirri bylgju, meðal annars fóru konur að tjá sig um andlega kúgun sem þær upplifðu í ástarsambandi með körlum. „Stelpur komu fram og sögðu: Kærastinn minn minn bannar mér að pósta svona myndum, og mér líður illa yfir því, því mig langar að gera það,“ hefur Edda eftir konum sem höfðu samband við hana.

„Þá þróast það út í umræðuna um af hverju maður má ekki pósta svona mynd, hvað er maður að gera og er vont að vilja athygli? Er vont að vilja sýna að manni finnst maður flottur?“ Edda segir óskiljanlegt að fólk geti ekki fundið fyrir stuðningi annarra yfir því. „Af hverju ættu aðrar konur ekki að styðja konur, og kærastinn þinn líka? Mér finnst þú flott og auðvitað mega allir sjá það.“

Myndir af líkamanum sýna ekki skort á gáfum

Eddu finnst fráleitt að gefið sé í skyn að einhver sé ekki starfi sínu vaxinn vegna þess að viðkomandi sé fáklæddur á Instagram. „Þetta hefur ekkert með gáfur að gera. Þú ert ekkert heimskari fyrir að vera að sýna líkamann þinn, hvernig er líkaminn þinn tengdur við gáfur? Það eitt og sér er bara sturlað fyrir mér.“

Fjölskylda Eddu í Líbanon og faðir hennar hafa ekki gert miklar athugasemdir við málstað Eddu og myndirnar hennar þó að menningin sem þar ríkir sé afar frábrugðin þeirri sem við þekkjum. „Ég hef oft heyrt pabba minn tala um að konur séu fallegar og líkamar þeirra fallegir og allt þetta. Hann hefur aldrei sett út á mig fyrir að pósta myndum,“ segir Edda. Konum úr líbanskri fjölskyldu hennar þyki þetta þó stundum skrýtið, aðallega þeim sem eru af eldri kynslóðinni. „Sem er ekki endilega skrýtið því þau eru bara alin upp við þetta. Við erum ekki að reyna að breyta hugarfari þeirra heldur að ná til yngri kynslóðar.“

Umfjallanir um Only fans umdeildar

Hlaðvarp Eddu, Eigin konur, hefur fengið mikið umtal og er afar vinsælt. Í því er meðal annars talað um ofbeldi og kynlífsvinnu og hefur það orðið miðpunktur umræðunnar að miklu leyti. Meðal þeirra sem hafa komið í viðtal eru konur sem birta efni á Only fans. Þær umfjallanir hafa vakið mikið umtal.

„Við gefum þeim platform til að segja frá sinni reynslu án þess að við séum að gagnrýna þær, eða gera eitthvað annað en að spyrja þær,“ útskýrir Edda. Í kjölfarið á þeirri umfjöllun fengu þær skilaboð frá mörgum foreldrum sem þökkuðu fyrir að þær væru að varpa ljósi á Onlyfans og útskýra hvað það væri. „Þá gætu þau átt samtalið við börnin sín. Með því að vekja athygli á þessu er hægt að skoða: Er barnið mitt þarna inni á? Þannig getum við komið þessu á yfirborðið og það er það sem við viljum.“

Samfélagið grípi þá sem losna úr herberginu

Einhverjir gagnrýndu þær fyrir að normalísera Only fans og lokka ólögráða einstaklinga til að taka þátt. Edda segist hafa búist við gagnrýninni og að þeim sé mikilvægt að allir átti sig á að þær séu ekki að hvetja neinn til að framleiða efni á miðlinum. Hún segir að það sé alltaf ástæða fyrir því að fólk leiti í að framleiða klámefni þar og margir hafi lent í ofbeldi, og að þarna finni þau vissa lausn. „Við vildum skapa umræðu um að þegar einstaklingar eru þarna inni, ef þau finna að þau vilji ekki lengur vera það, sé samfélagið til í að grípa þá. Í staðinn fyrir að þetta sé skömm.“

Ættum ekki að dauðadæma alla sem stíga fram

Edda hefur tekið þátt í nýjustu #metoo-bylgjunni og meðal annars sagt frá reynslu sinni á Twitter. Hún segir mikilvægt að trúa þolendum en skapa einnig rými fyrir gerendur til að viðurkenna eigin verknað. Með því að tjá sig um brot sem hún sjálf hefur orðið fyrir segist hún vilja vera hvatning fyrir aðrar konur til að stíga fram og segja frá. „Ef þú kemur fram er ég tilbúin til að styðja við þig og trúa þér,“ segir hún. Skrímslavæðing segir hún að sé af hinu illa og hún vill afnema hana. „Vinnum að betri heimi án þess að dauðadæma alla sem stíga fram,“ segir hún.

Endurklipptu myndbandið og settu aftur í dreifingu

Myndskeið sem hlaðvarpsstýrur Eigin kvenna sendu frá sér var gagnrýnt úr nokkrum áttum, meðal annars fengu þær ábendingar um að þátttakendur í því hefðu sjálfir farið yfir mörk kvenna, sem tveir þeirra viðurkenndu svo sjálfir. Í myndbandinu er þjóðþekkt fólk að lýsa yfir stuðningi við þolendur í samfélaginu og segjast trúa þeim.

Það var tekið úr dreifingu og endurbirt nýverið en búið er að klippa þá út sem stigu fram. Edda segir að upplifun kvenna um menn í myndskeiðinu eigi rétt á sér en það sé ekki rétt að hún eigi sjálf að axla ábyrgð á hegðun þeirra. Í gagnrýninni felist hins vegar viss tækifæri til að halda samtalinu áfram. „Hennar upplifun er svona, og það þarf að taka mark á henni. Þá fær hann tækifæri til að stíga fram og biðjast afsökunar.“

Hefur ekki rifið sjálfa sig niður eftir gagnrýni

Viðbrögðin við myndbandinu hafi þannig falið í sér mikilvæga umræðu í sjálfri sér og varpi fram spurningunni um hvað skuli gera ef einhver stígur fram opinberlega og segist ætla að styðja þolendur, þegar einhver í samfélaginu upplifir að viðkomandi hafi sjálfur brotið á sér. „Við viljum að viðbrögðin við myndbandinu séu tækluð þannig að #metoo-bylgjan sé að virka,“ segir Edda.

Þó gagnrýnin hafi á köflum verið hörð segist Edda ekki taka hana nærri sér. „Það eru allir uppgefnir, reiðir, sárir og pirraðir,“ segir Edda sem lætur ekki deigan síga í baráttunni. „Ég ætla bara að reyna mitt besta en hef ekki verið að rífa sjálfa mig niður. Ég hugsa bara: Hér er eitt annað vandamál sem við þurfum að tækla.“

Hafdís Helga Helgadóttir ræddi við Eddu Falak í Sunnudagssögum á Rás 2. Hér er hægt að hlýða á viðtalið í heild sinni.

Tengdar fréttir

Mannlíf

„Eflaust verður rætt um mig í einhverjum búningsklefum“