Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sumir sjá ekki aðra lausn en að drepa kettina

18.05.2021 - 08:44
Mynd: EPA / EPA
„Auðvitað vonum við að allir vilji hjálpast að en svo eru alltaf einhverjir inn á milli sem ekki sjá aðra lausn en að drepa kettina.“ Þetta kom fram í viðtali við Jóhönnu Ásu Evensen rekstrarstjóra Kattholts í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Fyrir kemur að eitrað er fyrir köttum sem ganga lausir í borg og bæjum.

Ummæli þar sem mælt er með því að eitrað skuli fyrir köttum með því að blanda matvælum saman við frostlög hafa verið tilkynnt til Matvælastofnunar.

Þau voru skrifuð sem athugasemdir við viðtal Fréttablaðsins við séra Sigurð Ægisson, sóknarprest á Siglufirði í síðustu viku, sem hefur um langa hríð merkt fugla. 

Hann gerði í viðtalinu athugasemdir við lausagöngu katta yfir varptímann. Fuglavernd hefur hvatt fólk til að halda köttum sínum inni og birt lista yfir hvenær algengustu garðfuglar verpa en þær tegundir veiða kettir helst.

Dæmi eru um að eitrað hafi verið fyrir dýrum, meðal annars í Hveragerði eins og þekkt er af fréttum. En kemur svona sterka afstaða gegn köttum kattavinum á óvart og hvernig taka þeir í bann við lausagöngu katta?

Jóhanna sagði af og til hafa borist fréttir af að köttum og hundum hafi verið byrlað eitur. „Oft vitum við ekki um eitrunina fyrr en dýrið hefur verið krufið. Það treysta sér samt ekki allir í að láta kryfja dýrið sitt.“

„Manni finnst þetta bara ekki í lagi því okkur er öllum annt um dýrin, fuglana jafnt sem kettina. Því er sláandi að lesa svona ummæli. Svo er erfitt að sanna nokkuð nema maður horfi upp á einhvern dýfa mat ofan í frostlög og taka athæfið upp.“

Jóhanna sagði ketti mest halda sig í sínu nærumhverfi og að erfitt sé að loka útiketti inni. Hún benti jafnframt á að lausaganga katta væri leyfð í Reykjavík eins og er.

„Það er rosalega erfitt. Við mælum með að halda þeim inni yfir nótt og setja á þá bjöllur og trúðskraga. Það er ýmislegt hægt að gera til að koma í veg fyrir að kettir veiði sér til matar.“

„Auðvitað reynir maður alltaf að biðla til fólks að vinna þetta í sameiningu yfir viðkvæmasta varptímann.“ Mikil aðsókn hefur verið í ketti og sérstaklega kettlinga í faraldrinum, að sögn Jóhönnu, og nú sé bara einn heimilislaus köttur í Kattholti.

„Hann er svolítið sérlundað fress sem heitir Mió. Hann elskar að fá klapp og klór en um leið og það verður of mikið ákveður hann sjálfur að nóg sé komið. Míó þarf að vera á barnlausu heimili og helst ekki með öðrum dýrum.“

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV