Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Stendur ekki til að beita Ísrael viðskiptaþvingunum

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Íslensk stjórnvöld telja ekki ráðlegt að beita viðskiptaþvingunum í garð Ísraels til að knýja fram frið á milli Ísraelsmanna og Palestínumanna. Slíkar aðgerðir myndu ekki hafa teljandi áhrif á efnahag Ísraels en kæmu sér verr fyrir þjóðarbúskap Íslendinga.  

Seinustu daga hafa mótmælendur kallað eftir því að stjórnvöld hér á landi beiti viðskiptaþvingunum gegn Ísrael til að knýja þá til að láta af árásum á Palestínumenn. Undanfarnir dagar hafa verið blóði drifnir á Gazasvæðinu þar sem óbreyttir borgarar hafa dáið í átökum.

Að minnsta kosti 212 Palestínumenn hafa dáið í árásum Ísraelsmanna seinustu daga, þar af 61 barn. Rúmlega 1.500 hafa særst í átökunum.  Þessi lota átaka í stríði Palestínu og Ísraels hófst eftir að Hamas skaut eldflaugum að Jerúsalem á mánudaginn fyrir viku síðan. Sú árás var gerð í kjölfar margra vikna átaka palestínskra mótmælenda og ísraelskra lögreglumanna í Jerúsalem. Palestínumennirnir höfðu mótmælt hústöku ísraelskra borgara á heimilum palestínskra fjölskyldna. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun að ekki stæði til að beita viðskiptaþvingunum gegn Ísrael. 

„Það er auðvitað mjög mikilvægt að þessi stóru ríki, bæði Bandaríkin og Rússland beiti sér fyrir því að vopnahlé verði strax og að menn setjist niður og ræði lausnir. Það liggur alveg fyrir hver afstaða Íslands er í því. Við höfum viðurkennt sjálfstæði Palestínu og teljum ljóst að til frambúðar muni alltaf byggjast á tveggja ríkja lausninni.“ 

Kemur til greina að setja einhvers konar viðskiptabann á vörur frá Ísrael?

Það hefur ekki verið til umræðu. Þau viðskiptabönn sem við höfum tekið þátt í hafa alltaf byggst á alþjóðlegu samstarfi um slíkar þvinganir. Það hefur ekki verið til umræðu að þessu sinni,“ sagði Katrín Jakobsdóttir í viðtali við Ingvar Þór Björnsson fréttamann að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. Hún fundaði síðan með Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem staddur er hér á landi. 

Fiskur og kjöt fyrir vélar, tæki og íhluti 

Helstu viðskipti sem eiga sér stað á milli Íslands og Ísrael eru með  matvæli, íhluti, vélbúnað og tæknibúnað. Frá Íslandi eru fyrst og fremst flutt út matvæli, svo sem fiskur og kjöt. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig vöruskipti á milli ríkjanna tveggja skiptast. 

Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur innflutningur verið talsvert meiri til Íslands en útflutningur seinustu 3 ár. Árið 2019 voru fluttar út vörur frá Íslandi til Ísrael fyrir um 97 milljónir króna en innflutningur nam tæpum 738 milljónum króna. Í fyrra nam útflutningur rúmlega 177 milljónum króna, þar af um 156 milljónir fyrir matvæli. Innflutningur var fyrir tæpar 690 milljónir.  Það sem af er ári er innflutningurinn einnig mun meiri en útflutningurinn. Þessi verð eru svokölluð fob-verð. 

Í fyrra voru flutt út 225 tonn af heilfrystum fiski, um 20 tonn árið 2019 og 20 tonn það sem af er árið 2021.  Eins voru flutt út um 38 tonn af hrognum í fyrra, hátt í 100 tonn af matvælum í loftþéttum umbúðum og um 85 tonn árið 2019. Námu verðmæti þess útflutnings rúmum 70 milljónum króna.  

Samkvæmt tollskráningu eru helstu vörur sem fluttar eru inn frá Ísrael raftæki og heimilistæki, matvæli, lyf og fjárfestingarvörur, sem er æði almennur tollflokkur. Þar er að finna tollnúmer vöruflokka allt frá verkfærum, kvikmyndavélum, dýpkunarskipum, gasmælum og dælum til lifandi dýra.  

Reykjavíkurborg vildi sniðganga vörur frá Ísrael en dró í land

Árið 2015 var lögð fram tillaga í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem lagt var til að borgin sniðgengi vörur frá Ísrael. Í tillögunni var lagt til að borgin kaupi ekki vörur frá Ísrael á meðan hernámi landsins á landsvæði Palestínumanna varir. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að með samþykkt tillögunnar styðji borgin rétt Palestínumanna til sjálfstæðis og fullvalda ríkis innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið 1967. Slík sniðganga er í greinargerðinni sögð friðsamleg aðferð til að hafa áhrif á stjórnvöld og ráðahópa í ríkjum þar sem mannréttindi séu ekki virt og alþjóðasamþykktir að engu hafðar. 

Tillagan vakti nokkur viðbrögð bæði hér á landi og erlendis. Tillögunni var ætlað að snúa að hernumdum svæðum en ekki Ísrael í heild sinni. Meðal þeirra sem gagnrýndu stjórnvöld var Ronald Lauder, milljarðamæringur og erfingi Estee Lauder snyrtivörurisans og forseti Heimsþings gyðinga. Hann gagnrýndi íslensk stjórnvöld fyrir að bregðast ekki af nægilegri hörku við ákvörðuninni.  Utanríkisráðuneytið brást við tillögunni og sagði hana stangast á við utanríkisstefnu Íslands. 

„Sveitarstjórnir eru eins og önnur stjórnvöld bundin af lögum. Í því felst að Reykjavíkurborg verður að haga stjórnsýslu sinni í samræmi lög og að ákvarðanir hennar mega ekki fara í bága við þau, þ. á m. lög um opinber innkaup, þar sem óheimilt er að mismuna fyrirtækjum á grundvelli þjóðernis eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Samþykki Reykjavíkurborg að breyta innkaupastefnu sinni með bindandi hætti þannig að ísraelskir birgjar skuli sniðgengnir, samræmist það hvorki íslenskum lögum né ákvæðum í alþjóðlegum skuldbindingum alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup, sem Ísland er aðili að og Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög eru bundin af,“ sagði í yfirlýsingu ráðuneytisins frá árinu 2015.  

Tillagan var einnig fordæmd af þáverandi forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem sagði hana fráleita og að hún hefði skaðað viðskiptasamband Íslands og Ísraels. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tók í sama streng og sagði málið hafa skaðað viðskiptasamband við Ísrael.  Fór svo að lokum að Dagur B. Eggertsson dró tillöguna til baka þar sem hún þótti ekki nægilega skýr.  

Viðtal við Katrínu Jakobsdóttur frá því í morgun má sjá hér að neðan. 

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV