Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Spá fjölgun ferðamanna og auknum hagvexti næstu ár

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Landsbankinn og Íslandsbanki eru nokkuð á sama máli um verðbólguþróun næstu missera og ára. Hagdeildir beggja banka telja hámark verðbólgu vera að nást og að verðbólgumarkmið Seðlabanka náist áður en langt um líður.

Þjóðskrá birti leiðréttingu á vísitölu íbúðaverðs fyrir marsmánuð í gær. Í tilkynningu Hagstofu Íslands í dag segir að leiðréttingin hafi engin áhrif á mælingar stofnunarinnar á vísitölu neysluverðs.

Samkvæmt því sem segir á vef Þjóðskrár hækkaði vísitala íbúðaverðs um 3,3% milli mánaða, um 4% síðustu þrjá mánuði og um 10,7% síðasta ár. 

Íslandsbanki metur að breytingar á húsnæðisverði skapi um 20% verðbólgunnar og hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir 10,5% fasteignaverðshækkun milli ársmeðaltala í ár.

Næstu ár dragi verulega úr fasteignahækkunum. Á næstu árum minnki skráð atvinnuleysi einnig, að mati Landsbankans, það verði 8,8 í ár, 5,5% á næsta ári og nálægt 4,6% árið 2023. 

Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá greiningu Íslandsbanka, segir í samtali við fréttastofu að ákveðins misræmis hafi augljóslega gætt milli gagna Þjóðskrár og Hagstofu.

Það hafi ekki áhrif á verðbólguspá Íslandsbanka frá í gær enda noti bankinn gögn Hagstofu við sína útreikninga. Samkvæmt spá greiningardeildar Íslandsbanka í gær mælist 12 mánaða verðbólga 4,4% í maí, en hún var 4,6% í apríl.

Bankinn spáir um 0,4% lækkun vísitölu neysluverðs í mánuðinum. Þá gera spár ráð fyrir 4,2% verðbólgu í ágúst og að 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði náð um mitt ár 2022.

Hagfræðideild Landsbankans spáir 4,3% verðbólgu í maí, að verðbólga ná hámarki á öðrum fjórðungi ársins og taki þá að síga rólega sem megi þakka áhrifum styrkingar krónunnar undanfarið, slaka í framleiðslu og varfærinni stýrivaxtahækkun.

Spá bankans gerir ráð fyrir 4% meðalverðbólgu í ár. Landsbankinn býst við hóflegum hagvexti næstu tvö ár og að ferðamenn verði 800 þúsund á þessu ári, tæplega tvöfalt það á næsta ári og nái tveimur milljónum 2023. Fjölgunina megi þakka góðum gangi í bólusetningu hér og í helstu viðskiptalöndum.