Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sakaði Gísla Martein um áróður gegn Ísrael í beinni

18.05.2021 - 22:00
Mynd: RÚV / RÚV
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, furðaði sig á lýsingu Gísla Marteins Baldurssonar frá fyrra undanúrslitakvöldi Eurovision-keppninnar í kvöld. Gunnar sagði Gísla hafa notað tækifærið til þess að beita pólitískum áróðri í starfi.

Gísli Marteinn var að lýsa keppninni í kvöld og kemur með innslög á milli laga. Fyrir lagið hjá Ísrael, sem heitir Set me free, sagði Gísli:

„Öfugt við það sem margir vafalaust telja þá fjallar lagið Set me free ekki um þá Palestínumenn sem eru fangar í eigin landi við landtökubyggðir Ísraela, heldur er þetta klassískt ástarlag. Við fáum hér eldvörpur og sprengjur en áberandi minna en áður hjá Ísraelsmönnum, hugsanlega uppteknir við að beina sprengjunum í aðrar áttir þessa dagana,“ sagði Gísli, en lýsinguna má sjá hér að ofan.

Umræða um stuðning við einkarekna fjölmiðla stendur yfir á Alþingi og Gunnar Bragi nýtti tækifærið til þess að spyrja Bryndísi Haraldsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokkisns, um ummælin þegar hann svaraði henni um málefni Ríkisútvarpsins.

„Nú stendur yfir þetta Eurovision dæmi allt saman og þar hefur komið í fréttir að þulur Ríkisútvarpsins ákvað að nota tækifærið til að beita pólitískum áróðri í starfi sínu þar,“ sagði Gunnar Bragi, og tók fram að hann teldi sjálfur að Ísraelsmenn beittu Palestínumenn of mikilli hörku.

„Finnst háttvirtum þingmanni það við hæfi að Ríkisútvarp allra landsmanna, hið hlutlausa Ríkisútvarp, taki afstöðu í því máli líkt og gert var í kvöld, að því er virðist samkvæmt fréttum fjölmiðla, þar sem þessi ágæti þulur gagnrýnir með beinum eða óbeinum hætti Ísraela og framlag þeirra í þessari keppni? Finnst þingmanninum eðlilegt að Ríkisútvarpið hafi farið fram með slíkum hætti?“ spurði Gunnar Bragi, en hluta af ræðu hans má sjá hér að neðan.

Mynd: RÚV / RÚV

Bryndís svaraði því til að hún hefði ekki fylgst með umræðu á samfélagsmiðlum í kvöld, en ítrekaði að fréttamenn Ríkisútvarpsins ættu að vera óháðir. Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs væri svo efni í sérstaka umræðu á Alþingi.