Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Píratar vilja láta rannsaka öll vistheimili

18.05.2021 - 22:56
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Þingflokkur Pírata hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að ráðist verði í alhliða úttekt á starfsemi vist- og meðferðarheimila. Þingmennirnir vilja láta rannsaka öll vist- og meðferðarheimili fyrir börn og fatlaða einstaklinga sem ríki, sveitarfélög, félagasamtök og einkaaðilar hafa starfrækt hér á landi „svo langt aftur sem fyrirliggjandi gögn og upplýsingar gefa tilefni til“.

Í greinargerð með tillögunni er vísað til reynslunnar af störfum vistheimilanefndar sem sett var á fót árið 2007 til að rannsaka hvað gerðist á vistheimilinu í Breiðavík. Í framhaldinu var starfsemi fleiri vistheimila, heimavistarskóla og upptöku- og unglingaheimila rannsökuð og þolendum greiddar bætur úr ríkissjóði.

Píratar segja að þrátt fyrir þetta hafi fjölmörg vistheimili ekki verið rannsökuð til hlítar. Þar er fyrst minnst á Arnarholt og Laugaland sem verið hafa í fréttum undanfarið vegna ásakana um illa meðferð á vistmönnum. Kallað hefur verið eftir rannsókn á báðum heimilum. „Flutningsmenn þessarar tillögu telja fullt tilefni til að bregðast við því ákalli sem hér birtist og láta framkvæma þær rannsóknir sem kallað er eftir. Þessar kröfur sýna jafnframt að þrátt fyrir fyrri störf vistheimilanefndar eru enn mörg vistheimili sem þörf er á að kanna.“

Jafnframt er nefnt að Bitra, sem var vistheimili fyrir fatlaða og fangelsi á níunda áratug síðustu aldar verði rannsakað, sömuleiðis Sólheimar í Grímsnesi, Kleppjárnsreykir í Borgarfirði, Tjaldanes í Mosfellsveit og Sólborg á Akureyri auk fjölda annarra vistheimila.

Píratar leggja til að Alþingi feli forsætisráðherra að skipa sérstaka nefnd sem rannsaki öll vist- og meðferðarheimili barna og fatlaðra einstaklinga sem upplýsingar eru til um, einnig að forsætisráðherra geri fyrrverandi vistfólki og aðstandendum þeirra kleift að koma ábendingum og kvörtunum til nefndarinnar og hafi frumkvæði að rannsókn á einstökum vist- og meðferðarheimilum ef nefndin telur tilefni til slíkrar rannsóknar.