Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Húsfélagsformaður dæmdur til að endurgreiða 3 milljónir

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi konu í dag til að endurgreiða húsfélagi tæpar þrjár milljónir króna. Hún var formaður húsfélagsins um rúmlega tveggja ára skeið. Á þeim tíma greiddi hún sér 35 þúsund krónur á mánuði í laun og lagði út í margvíslegan kostnað sem ekki hafði verið borinn undir aðra. Þegar annar íbúi var kosinn formaður í hennar stað brást konan við með því að greiða sér tæpar 600 þúsund krónur af sjóðum félagsins næsta dag.

Konan tók við formennsku í húsfélaginu í janúar árið 2017. Tveimur mánuðum síðar sagði hún upp viðskiptum við fyrirtæki sem haldið hafði utan um fjármál húsfélagsins. Þess í stað tók hún að sér að halda utan um allt starf húsfélagsins og greiddi sér fyrir 35 þúsund krónur á mánuði. Húsfélagsgjaldið var hækkað um fimm þúsund krónur, úr níu í fjórtán þúsund á mánuði, til að standa straum af laununum. Sjö íbúðir eru í húsinu og því nam hækkunin launum konunnar. 

Einráð í rúm tvö ár

Næstu rúmlega tvö árin stýrði hún starfsemi húsfélagsins ein, hafði ein aðgang að reikningum þess og veitti gjaldkera ekki upplýsingar um stöðu mála. Gerðar voru athugasemdir við störf húsfélagsformannsins á aðalfundi í nóvember 2018, bæði launagreiðslur og óútskýrð útgjöld. Þegar á leið fór óánægja annarra íbúa vaxandi og á aðalfundi húsfélagsins í maí 2019 fékk konan mótframboð. Hún féll í kosningu, þar sem allir nema hún greiddu atkvæði með hinum frambjóðandanum. Þá hófst vinna á vegum húsfélagsins við að fara yfir störf formannsins fyrrverandi. Niðurstaðan úr því var sú að konan hefði sem húsfélagsformaður tekið rúmar þrjár milljónir út af reikningum húsfélagsins með ásetningi og ólögmætum hætti í eigin þágu og annarra og stofnað til óútskýrðra skuldbindinga sem hún hefði ekki haft heimild til.

Húsfélagið kærði konuna til lögreglu sem vísaði málinu frá. Félagið höfðaði líka mál gegn konunni og krafðist 3,6 milljóna króna frá henni. Annars vegar vegna launa og ýmissa útgjalda, hins vegar vegna kostnaðar við að fara yfir störf hennar.

Meira en hefðbundin vinna formanns

Konan þvertók fyrir að hafa gert nokkuð rangt. Störf hennar hefðu verið umfram það sem alla jafna mætti vænta af formanni í húsfélagi, því hefði verið eðlilegt að hún fengi greitt fyrir þau. Jafnframt framvísaði hún undirritun þriggja af sjö eigendum íbúða í húsinu um samþykki. Þar sem hún hafði aldrei borið þetta undir húsfélagsfund taldi dómari henni ekki stætt á launagreiðslum til sín.

Húsfélagsformaðurinn fyrrverandi sagðist hafa greitt fyrir margvíslegar nauðsynlegar viðgerðir og viðhald á húsinu. Að auki hefði hún greitt sér fé, daginn eftir að hún var kosin úr embætti, til að tryggja hagsmuni sína því aðrir eigendur hefðu ekki tekið fullan þátt í kostnaði við húsið. Dómari sagði að í báðum tilfellum hefði konan ekki sýnt fram á að útgjöldin gögnuðust húsfélaginu og/eða gengju lengra en næmi heimildum formanns án samþykkis stjórnar húsfélagsins eða húsfélagsfundar. Því samþykkti dómari kröfu húsfélagsins um endurgreiðslu formannsins fyrrverandi. Dómarinn hafnaði hins vegar kröfu um að konan yrði látin greiða fyrir störf núverandi formanns húsfélagsins sem kannaði störf hennar og lögmanna sem undirbjuggu kæru til lögreglu. Dómari sagði að þær greiðslur byggðu á ákvörðunum húsfélagsins og væru því á ábyrgð þess en ekki formannsins fyrrverandi.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV