Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Frjósöm ær á Ingjaldsstöðum bar sex heilbrigðum lömbum

Kind á bænum á Ingjaldsstöðum í Þingeyjarsveit kom eigendum sínum heldur betur á óvart á dögunum þegar hún bar sex lömbum. Öll lömbin lifðu og eru hin sprækustu. Mjög sjaldgæft er að kindur verði sexlembdar.

Þær bera nú hver af annarri ærnar á Ingjaldsstöðum en þar er sauðburður langt kominn. Engin þeirra slær þó við ánni sem gerði sér lítið fyrir og skilaði sex lömbum í heiminn.

„Þetta gekk mjög vel og var ekkert mál“

Sigurður Atlason, bóndi á Ingjaldsstöðum segir burðinn ekki hafa tekið langan tíma. „Þetta gekk mjög vel og var ekkert mál.“
„Þurfti hún enga aðstoð?“
„Nei, það var allt í fínasta lagi með það.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson

Sérlega frjósöm ær

Samkvæmt fósturtalningu í vetur gekk kindin með fimm lömb, sem Sigurður segir hafa þótt nokkuð nóg - en reyndin varð önnur. „Já, þetta er mjög frjósöm ær og er búin að eiga 23 lömb á fimm árum. Hún er búin að eiga sex, fimm, fjögur, þrjú og tvö.“

Sexlembur afar sjaldgæfar

Sexlembur eru afar sjaldgæfar og enn sjaldgæfara að öll sex lömbin lifi. Þannig sýna tölur frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins að frá 2007 hafa aldrei fleiri en þrjár ær borið sex lömbum í sauðburði. Aðeins tvisvar á þessum tíma hafa öll lömbin lifað. Þessar ær eru oftast með svokallað Þokugen, kennt við ána Þoku sem bændur á Smyrlabjörgum áttu um 1950. Kindur undan hrútum af þessum stofni eru gjarnan þrí- eða fjórlembdar og þaðan af meira. Þetta er talið einstakt í norrænu fjárkyni.

Öll sex lömbin heilbrigð

Sexlembingarnir á Ingjaldsstöðum eru ekki stórir, en einn þetta er samt sýnu minnstur. Öll eru lömbin mjög spræk og eiga sjálfsagt eftir að komst vel á legg. „Lömbin eru held ég bara alveg alheilbrigð og allt í lagi með þau,“ segir Sigurður. „Ég er búinn að taka helminginn af þeim undan henni og bara allt í lagi með þessi lömb.“