Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Flugfélagið Play byrjað að selja farmiða

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Flugfélagið Play hóf sölu farmiða snemma í morgun og hefur salan farið vel af stað, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu. Fyrsta áætlun félagsins gildir út apríl 2022 en þegar hefur verið skipulagt flug til sjö áfangastaða.

Tækifæri var fyrir það fólk sem hafði skráð sig á póstlista félagsins að fá ferð án endurgjalds. Um liðna helgi var tilkynnt að Play hefði fengið flugrekstrarleyfi en tæp tvö ár eru síðan félagið var stofnað.

Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir viðtökur hafa verið góðar og að mikil ánægja ríki með að farmiðasala sé hafin. „Það má alltaf fagna samkeppni á íslenskum markaði.“ 

Fyrsta flug félagsins verður til Lundúna 24. júní. Félagið notar nýlegar franskar Airbus A321NEO-þotur sem það leigir af flugvélaleigunni AerCap. Fyrstu sjö áfangastaðir Play eru Alicante, Barcelona, Berlín, Kaupmannahöfn, London, París og Tenerife.