Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjöldi fólks með sykursýki tvö tvöfaldaðist á 14 árum

Blóðsykursmæling hjá sykursjúkum.
 Mynd: Karen Barefoot - Freeimages
Fjöldi þeirra Íslendinga sem er með sykursýki tvö, áunna sykursýki, meira en tvöfaldaðist á árunum 2005 til 2018. Árið 2005 voru ríflega 4.200 með sykursýki tvö hér á landi en 10.600 árið 2018. Fjölgunin nær til karla og kvenna á öllum aldri.

Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar Hjartaverndar sem birtar voru í maíhefti Læknablaðsins. Haldi þróunin áfram með sama hætti megi búast við því að 24 þúsund manns verði með sykursýki 2 árið 2040 og því þurfi að grípa til markvissra aðgerða.

Þar er heilsueflandi heilsugæsla nefnd til sögunnar, hvatning til fólks í áhættuhópum að breyta lífsháttum sínum, merking matvæla, skattur á sæta drykki og fleira sem reynt hefur verið í Bandaríkjunum.

Þegar varpað er upp mögulegum skýringum kemur fram að eldri rannsóknir Hjartaverndar sýni tengsl aukinnar offitu og sykursýki 2 en ekki hafi verið gerð hóprannsókn á líkamsþyngd síðan 2011.

Mataræði er sagt hafa batnað í aðalatriðum frá 2011 en aðflutningur fólks þaðan sem sykursýki 2 sé algengari en hér gæti aukið tíðnina. Sykursýki eykur hættu á hjarta- og æðasjúkdómum og ýmsum fylgikvillum, svo sem á sjón og nýrnastarfsemi.

Hún eykur einnig kostnað heilbrigðiskerfisins en rannsakendur segjast ekki vita til að kostnaður við sykursýki hafi verið rannsakaður hér á landi. Áríðandi sé gera hóprannsókn þar sem kallaður verði til hópur fólks sem hefur verið skoðaður áður.

Rannsóknin byggist á fjölda ávísana á sykursýkilyf á tímabilinu sem geymdar eru í Lyfjagagnagrunni landlæknisembættisins, sem gefi markvissa hugmynd um stöðuna en komi ekki í stað beinna mælinga.

Algengi sykursýki 2, fjöldi á hverja þúsund íbúa, fór úr 2,3% í 4,3% hjá körlum á aldrinum 18 til 99 ára og úr 1,7% í 3,5% hjá konum.

Nýgengi sykursýki 2 hjá 18 til 79 ára jókst um 2,8% á ári en samanburður gagna úr Lyfjagagnagrunninum við gögn úr Áhættuþáttakönnun Hjartaverndar sýndi vanmat á nýgengi um 29%.

Þróun algengis og nýgengis sykursýki hér á landi er svipuð og var í Bandaríkjunum á árabilinu 1984 til 1996.