Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fengu 1.963 tilkynningar í farsíma

18.05.2021 - 09:25
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Þrettán ára nemendur í einum bekk í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði fengu tæplega tvö þúsund tilkynningar í farsíma sína á einum skóladegi. Börnin segja að fæstar af tilkynningum hafi verið mikilvægar. Dæmi eru um að krakkar vakni á nóttunni við tilkynningar.

Julie Holland Griggs, framhaldsskólakennari í Alabama í Bandaríkjunum, hefur verið óhrædd við að fara óhefðbundnar leiðir í kennslunni. Á dögunum voru nemendur hennar að lesa bókina Fahrenheit 451 sem snýst meðal annars um sífellt áreiti sem fólk verður fyrir. Hún fékk nemendur til að gera strik á töfluna í hvert skipti sem símar þeirra sendu þeim tilkynningu. 

Þessa tilraun ákvað kennari í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði að endurtaka. Hún bað nemendur um að koma með símana fullhlaðna í skólann. 

„Og kveikja á tilkynningum á þeim forritum sem þeir eru að nota alla jafna dags daglega. Og þau skrifuðu samviskusamlega niður ef þau fengu tilkynningu, hvort sem það voru auglýsingar, tilkynningar um skilaboð eða myndir eða hvað sem það var. Og svo tók ég saman í lok dagsins hvað þau höfðu fengið margar tilkynningar yfir daginn sem var ótrúlegt magn,“ segir Hrönn Árnadóttir, umsjónarkennari 7. HÁ í Hvaleyrarskóla.

Tuttugu börn á þrettánda ári eru í bekknum. Þau fengu samtals 1.963 tilkynningar. Það jafngildir 98 tilkynningum á hvern nemanda. Reyndar fékk einn nemandi 467 tilkynningar.

„Ég fékk 83,“ segir Áróra Sif Rúnarsdóttir nemandi í 7. HÁ í Hvaleyrarskóla.

Finnst þér það mikið eða lítið?

„Mér finnst það mjög mikið,“ segir Áróra.

Hvernig tilkynningar voru þetta?

„Mest af þeim voru frá Snapchat eða sms, nokkrar frá Youtube eða einhverjum leikjum,“ segir Áróra.

„Ég fékk 55,“ segir Aron Knútur Haraldsson, nemandi í 7. HÁ í Hvaleyrarskóla.

Finnst þér það mikið eða lítið?

„Alveg mikið,“ segir Aron.

Voru þetta einhverjar mjög mikilvægar tilkynningar sem þú fékkst?

„Nei, bara Snapchat og þannig,“ segir Aron Knútur.

Hrönn segir þetta mikla áreiti vera skilaboð til foreldra.

„Að vera svolítið meðvitaðir um hvað börnin eru að gera í símanum. Af því að vissulega trufla svona margar tilkynningar einbeitinguna. Ég held að mikið af þessum skilaboðum séu að koma í gegnum forrit sem hafa lítið vægi í skólakerfinu. Og líka mikið af skilaboðum sem börnin geta ekki ráðið fram út hvort séu mikilvæg eða ekki.“

Varstu að fá einhver mikilvæg skilaboð þarna?

„Nei, nema eitt frá pabba mínum,“ segir Lalita Ragna Pálsdóttir, nemandi í 7. HÁ í Hvaleyrarskóla.

Núna var kennarinn að spá í að það væru svo margir krakkar í nestistímum í frímínútum sem eru bara í símanum þegar þeir gætu verið að tala við aðra krakka auglitis til auglitis. Af hverju heldurðu að það sé?

„Af því að þau halda að þau geti talað saman í símanum, það sé mikið léttara að tala í símanum eða eitthvað þannig,“ segir Lalita.

Voru þetta tilkynningar sem þú hefði ekki viljað missa af að fá?

„Sumt af þeim já en mest af þeim voru bara ómerkilegar og oftast hunsa ég þær. Ég set oft símann á hornið á borðinu þegar ég hlusta á tónlist. Og ég reyni að fylgjast ekki með en þegar það er eitthvað sem mig langar mjög mikið að kíkja á, þá kíki ég bara á það,“ segir Áróra.

Hefurðu einhvern tímann vaknað upp á nóttunni þegar þú færð tilkynningar í símann?

„Já,“ segir Lalita. „Mjög pirrandi. Ég er bara að reyna að sofa og þá fæ ég bara tilkynningu.“