Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Beita sér fyrir friðsamlegum lausnum

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi stöðu mála á Gaza við Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fundi þeirra í Hörpu í dag. Katrín sagði þau bæði hafa lýst mikilli áherslu á að koma á friði svo hægt væri að vinna að langtímalausn. Hún sagði yfirlýsingar utanríkisráðherra Rússlands í gær til marks um að hann væri að marka sér stöðu fyrir fund Norðurskautsráðsins.

Heimsfaraldur og staða bólusetninga var meðal þess sem Katrín og Blinken ræddu, þar á meðal hvað Bandaríkin ætla að gera til að styðja við bólusetningar í heiminum og hvað Ísland leggi af mörkum, sagði Katrín. Enn fremur var mikið rætt um loftslagsmál. 

„Síðan ræddum við auðvitað stöðuna á Gaza. Þar fór hann [Blinken] yfir það sem hefur komið fram að Bandaríkin hvetja til vopnahlés og það sé mjög mikilvægt að stöðva ofbeldi og stöðva átök á svæðinu til þess að hægt sé að hefja samtal um friðsamlega lausn til lengri tíma,“ sagði Katrín. „Ég fór yfir afstöðu Íslands. Við viðurkenndum Palestínu sem sjálfstætt ríki og utanríkisráðherrann var meðvitaður um þá afstöðu og að við leggjum áherslu á tveggja ríkja lausn. Við vorum sammála um að mikilvægasta skrefið núna er að það verði vopnahlé, að átökin stoppi og að almennir borgarar hætti að láta lífið í þessum átökum.“

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Mikil öryggisgæsla er við Hörpu.

Aðspurð hvort Bandaríkin væru að gera nóg til að koma á friði svaraði Katrín: „Ég vona að þau beiti sér fyrir friðsamlegum lausnum og mér finnst þau vera að gera það.“

Ekki rætt um breytt varnarsamstarf

„Það eru auðvitað breyttar áherslur og ríkari áhersla á alþjóðlegt samstarf,“ sagði Katrín um breytingar á stefnu bandarískra stjórnvalda eftir forsetaskipti í janúar. Hún sagði það mikilvægt fyrir ríki eins og Ísland að Bandaríkin legðu áherslu á samstarf við aðrar þjóðir.

Ekki var rætt um breytingar á varnarsamstarfi eða aukna viðveru Bandaríkjanna á fundinum, sagði Katrín. Töluvert hefði verið rætt um jafnréttismál, sem ný Bandaríkjastjórn hefði sett á dagskrá. „Þó að við séum ekki búin að ná jafnrétti enn þá á Íslandi, því miður, þá höfum við margt fram að færa, við stöndum okkur vel í þeim málum og við erum lifandi dæmi um að ákvarðanir á vettvangi stjórnmálanna geta í raun og veru haft áhrif til að auka jafnrétti kynjanna og hefur gert það hér á landi,“

Lavrov að marka sér stöðu

„Hann var greinilega að marka sér stöðu í aðdraganda þessa fundar,“ sagði Katrín um yfirlýsingar Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í gær. Hann varaði vestræn ríki við því að gera kröfur til Norðurheimskautssvæðisins þar sem það tilheyrði Rússlandi. Lavrov sagði að Rússum bæri að tryggja öryggi strandlengjunnar sem liggur að Norðurheimskautinu.