Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aukin eftirspurn eftir stærri eignum í heimsfaraldrinum

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Samkomutakmarkanir og meiri viðvera fólks heima við gæti verið ein skýring þess að eftirspurn eftir stóru sérbýli hefur stóraukist, og ber í raun uppi þá hækkun sem nú er á fasteignaverði. Hagfræðideild Landsbankans birti í dag spá um að íbúðaverð hækki um 10,5% í ár, milli ársmeðaltala.

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu í apríl hækkaði um 2,7% frá í mars. Hún hefur hækkað um 8,3% síðustu sex mánuði og um 13,7% síðustu tólf mánuði. Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs, en í ljós kemur að mesta hækkunin er á eignum í sérbýli.

Þorsteinn Arnalds, framkvæmdastjóri hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, segir í samtali við fréttastofu að hin augljósa skýring á hækkun íbúðaverðs sé auðveldari fjármögnun. Þessi mesta hækkun á sérbýli vekur athygli stofnunarinnar.

„Það er allavega greinilegt að það eru hækkanir á sérbýli og sérstaklega stóru sérbýli sem hafa leitt þessa hækkun. Kannski er það aukin þörf fólks fyrir betra og meira rúm í kjölfar samkomutakmarkana. Og það er erfitt að sjá fyrir endann á því á höfuðborgarsvæðinu, því það er ekki fyrirséð að framboð á sérbýli aukist í náinni framtíð. Það er fyrst og fremst verið að byggja fjölbýli,“ segir Þorsteinn.

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu í apríl 2021:

 

Framkvæmdir mega ekki staðna

Síðustu ár hefur verið kallað eftir fleiri litlum og meðalstórum íbúðum og Þorsteinn segir að fyrst og fremst fjölbýli komi á markaðinn á næstu 1-2 árum.

„Þau anna nokkurn veginn þeirri þörf sem er að verða til, svo við sjáum fyrir okkur að það muni hugsanlega rofa til þar með tíð og tíma. En fasteignamarkaður er þannig að það er erfitt að bregðast við aukinni eftirspurn með miklum hraða,“ segir Þorsteinn.

Mikilvægt sé að ekki verði stöðnun í byggingariðnaði, en til þess þurfi að vera stöðugt framboð af lóðum og fjármögnun til þess að hefja framkvæmdir.

Ekki síðasti séns að kaupa íbúð

Þorsteinn segir að erfitt sé að spá fyrir um hvenær jafnvægi náist á fasteignamarkaði og eftirspurnin hjaðni.

„Hún ræðst fyrst og fremst af væntingum heimilanna og vaxtastigi, möguleikum til fjármögnunar. Ef vextir fara hækkandi þá getur slegið á eftirspurn, en það verður ekki stórkostlegt framboð af húsnæði næstu mánuði til viðbótar við það sem er,“ segir Þorsteinn.

Það geti því verið skynsamlegt fyrir kaupendur að halda ró sinni eins og staðan er núna.

„Þó það hafi verið mikil eftirspurn síðustu mánuði, og gengið á þær birgðir sem voru til af húsnæði, þá er ekki þannig að síðasta íbúðin sé að fara að seljast. Það er kannski skynsamlegra að draga andann, bíða og sjá enda nýjar íbúðir að koma á markaðinn. Sem betur fer er líf á byggingamarkaði og þessi kraftur sem hefur verið á fasteignamarkaði síðustu mánuði hvetur byggingaraðila til að halda áfram. Núna er ekki síðasta tækifærið til þess að eignast húsnæði,“ segir Þorsteinn Arnalds, framkvæmdastjóri hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.