
20 fyrirtæki framleiða yfir helming af öllu plastrusli
Frá þessu er greint á vef breska blaðsins The Guardian. Þar segir að fyrirtækin 20, sem samtals eru ábyrg fyrir 55 prósentum af einnota plastrusli heimsins, séu ýmist ríkisfyrirtæki eða alþjóðleg risafyrirtæki, þar á meðal efnaframleiðendur og olíu- og gasfyrirtæki.
Rúmlega 70 milljónir tonna af plastrusli frá 20 fyrirtækjum
Sérfræðingar rannsókna- og ráðgjafafyrirtækisins Wood Mackenzie, London School of Economics og Umhverfisstofnunar Stokkhólms rýndu í gögn um framleiðslu á einnota plasti árið 2019 og ruslinu sem henni fylgir.
Niðurstaðan var sú að það ár var bandaríski olíurisinn ExxonMobil allra fyrirtækja iðnastur við þann kola. Rekja má 5,9 milljónir tonna af einnotaplastrusli ársins 2019 til þess fyrirtækis. Stærsti efnaframleiðandi heims, hið bandaríska Dow, kemur fast á hæla olíurisans með 5,5 milljónir tonna og kínverska ríkisolíufyrirtækið Sinopec er skammt undan með 5,3 milljónir tonna af einnotaplastrusli.
Ellefu þessara 20 fyrirtækja eru með höfuðstöðvar í Asíu, fjögur í Evrópu, þrjú í Norður-Ameríku, eitt í Suður-Ameríku og eitt í Miðausturlöndum. Samtals framleiða þessi fyrirtæki ríflega helming þeirra 130 milljóna tonna af einnotaplasti sem hent var í ruslið - eða út í náttúruna - árið 2019, samkvæmt rannsókn sérfræðinganna.
Mengar náttúruna og kyndir undir hlýnun Jarðar
Einnota plast er nánast alfarið unnið úr jarðefnaeldsneyti og framleiðsla þess kyndir þar af leiðandi undir hlýnun Jarðar og loftslagsvánni. Það brotnar líka seint og illa niður og einungis 10 - 15 prósent þess eru endurunnin, segir í frétt Guardian. Því endar mikill meirihluti þess í plastfjöllum á ruslahaugum heimsins, sem rifrildi á víð og dreif um náttúruna eða í höfum, vötnum og vatnsföllum heimsins, stórum sem smáum, ýmist í misstórum stykkjum og tætlum eða sem heilsuspillandi örplast sem ógnar lífríki sjávar.