Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Víða flaggað gegn fordómum í garð hinsegin fólks

Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg
Í dag, 17. maí, er alþjóðlegur dagur gegn fordómum í garð samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og trans fólks. Þann dag árið 1990 tók Alþjóðaheilbrigðisstofnunin samkynhneigð af lista sínum yfir geðsjúkdóma.

Í tilefni dagsins er regnbogafánanum flaggað víða. Reykjavík er hluti regnbogaborga sem unnu saman undir verkefninu „Deilum fánanum“. Tilgangur þess er að veita systurborgum stuðning í baráttunni gegn mismunun í garð hinsegin fólks.

Listamaðurinn Gilbert Baker sem búsettur var í San Francisco hannaði og saumaði fána með röndum regnbogans árið 1978. Hugmynd hans var að litirnir táknuðu samfélag samkynhneigðra.

Á vefsíðu Hinsegin daga segir að Baker hafi stundum verið kallaður Betsy Ross samkynhneigðra, en hún saumaði fyrsta fána Bandaríkjanna. Gilbert Baker lést árið 2017, 65 ára að aldri. Nú er regnbogafáninn viðurkenndur af Alþjóðlegu fánanefndinni og blaktir við hún á hátíðisdögum hinsegin fólks um allan heim.

Í dag er fánanum flaggað við bandaríska sendiráðið. Það varð til að rifja upp að fáninn var dreginn að húni víða um Reykjavík meðan á heimsókn Mike Pence, þáverandi varaforseta Bandaríkjanna, til Íslands stóð í september 2019.

Það var gert vegna afstöðu varaforsetans til hinsegin fólks, en hann gagnrýndi meðal annars löggjöf sem vernda átti hinsegin fólk fyrir hatursglæpum, kvaðst andvígur samkynja hjónaböndum og hlynntur því að reglur Bandaríkjahers yllu brottrekstri trans fólks. 

Fyrir tveimur árum færði Alþjóðaheilbrigðisstofnunin flokkun tengda trans fólki frá geðsjúkdómum yfir í kafla um kynverund og heilsu.