Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Við tökum niðurstöðunum þegar þær koma“

Myndir sem voru teknar í bátsferð 15. maí í kringum Rotterdam.
 Mynd: Gísli Berg - RÚV
Greinist ekki fleiri smit í íslenska hópnum aukast líkurnar á að Daði og Gagnamagnið stígi á svið á fimmtudagskvöld. Þetta kom fram í máli Felixar Bergssonar í hádegsifréttum útvarps. Öllum líður vel en honum fannst leitt að missa af opnunarhátíð Eurovision-keppninnar í gær.

Felix segir að enginn úr íslenska hópnum hafi kennt sér meins og ekki finni nokkur fyrir einkennum COVID-19. Hópurinn var skimaður seinni partinn í gær og þau bíða því róleg. „Við tökum niðurstöðunum þegar þær koma.“

Allt að sólarhring getur tekið að fá niðurstöður en íslenski hópurinn er í fimm daga sóttkví. Frekari sýnataka verður fyrir búningarennsli sem fyrirhugað er á miðvikudag.

„Við vinnum að málinu með EBU og keppnishöldurum í Rotterdam. Allir eru í sínum herbergjum en við höldum miklu sambandi hvert við annað.“ Fólki virðist almennt líða vel en þau séu svekkt yfir að hafa lent í þessu.

„En vonandi kemur þetta. Verst var að missa af opnunarhátíðinni í gærkvöld á túrkísbláa teppinu. Það hefði verið gaman að vera þar. Raunar erum við ekki í höllinni fyrr en á miðvikudaginn og ef allt gengur upp þá verður vonandi allt eins og það á að vera.“ 

Íslenski hópurinn verður með í undanúrslitum fimmtudagskvöldsins, hvort sem það verður í beinni útsendingu eða með upptöku frá æfingu.