Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Skilja má ummæli Lavrovs á tvo vegu

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RUV
Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði, segir að skilja megi orð Sergeis Lavrovs, utanríkiráðherra Rússlands, á tvennan hátt. Annars vegar sem hernaðarleg ummæli og hins vegar að ræða þurfi yfirráðasvæði á fundum Norðurheimskautsráðsins. Lavrov varaði vestræn ríki við því að gera kröfu til Norðurheimskautssvæðisins.

Hann sagði á fundi með fréttamönnum í Moskvu í dag að öllum hefði verið ljóst lengi að það tilheyrði Rússlandi, Rússum bæri að tryggja öryggi strandlengjunnar sem liggur að Norðurheimskautinu.  

Fundur Norðurskautsráðsins í Hörpu á fimmtudag markar lok tveggja ára formennsku Íslendinga í ráðinu en Rússar taka við formennskunni.  

Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði, segir að hernaðarleg málefni hafi ekki verið rædd í Norðurskautsráðinu. Áherslan þar hafi verið á umhverfismál. Hún segir að það að yfirlýsingin komi á þennan hátt beint inn á fund Norðurskautsráðsins gefi til kynna að Rússar hafi áhyggjur af að Bandaríkin vilji láta meira til sín taka. Rússar sýni hernaðarlega uppbyggingu og Bandaríkin líka, og aðildarríki NATO t.d. með veru kafbáta í Norður-Noregi. 

„Þannig að skilaboðin frá Rússum kannski má túlka á tvenna vegu. Annars vegar hernaðarlega: Þetta er okkar yfirráðasvæði. Þið skulið ekki vera að sýna neina viðleitni til að taka stjórn á þessu eða koma of langt hingað inn. Og hins vegar eru kannski einhver skilaboð um að þessi mál séu þess eðlis að það þufi að ræða þau í samhengi við þessa fundi þar sem þessum málum hefur verið ýtt til hliðar fram til þessa.“