Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Of mikil vinna er alvarleg ógn við líf og heilsu fólks

17.05.2021 - 07:06
epa08033305 People work at a garments factory in Karachi, Pakistan, 29 November 2019. The textile industry is the largest manufacturing industry in Pakistan, according to official data.  EPA-EFE/SHAHZAIB AKBER
 Mynd: epa
Í rannsókn sem unnin var á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og Alþjóða vinnumálastofnunarinnar eru leiddar að því líkur að í kringum 750.000 Jarðarbúar deyi fyrir aldur fram vegna streitu og álags sem rekja má til of mikillar yfirvinnu og vinnuhörku. Rannsóknin tekur til ársins 2016 og bendir til þess að það ár hafi um 398.000 manns dáið úr heilablóðfalli og 355.000 úr hjartaáfalli og öðrum hjartasjúkdómum, sem rekja má til þess að fólk vann 55 klukkustundir á viku eða þaðan af lengur.

Þetta er meðaltalsaukning upp á 29 prósent frá árinu 2000, en hjartaáföllum og hjartveikitengdum dauðsföllum fjölgaði hlutfallslega mun meira á þessum 16 árum, eða um 42 prósent, á meðan banvænum heilablóðföllum fjölgaði um 19 prósent.

Bitnar mismikið á ólíkum hópum fólks

Of mikil yfirvinna bitnar mismikið á ólíkum samfélagshópum. Þannig eru karlmenn mun líklegri en konur til að deyja úr áföllum sem rekja má til of langra vinnudaga, því 72 prósent þessara dauðsfalla verða í þeirra hópi en 28 prósent meðal kvenna. 

Fólk í Suður- og Suðaustur-Asíu er líka verr sett en fólk annars staðar á jarðarkringlunni hvað þetta snertir og miðaldra fólk og þaðan af eldra þolir yfirvinnuna verr en þau sem yngri eru . Flest eru þessi yfirvinnutengdu dauðsföll meðal fólks á aldrinum 60 - 79 ára, sem vann 55 tíma eða lengur á viku hverri á aldrinum 45 - 74 ára.

Alvarleg heilsufarsógn

Ein meginniðurstaða rannsóknarinnar er sú, að fólki sem vinnur 55 tíma á viku eða lengur sé 35 prósentum hættara við heilablóðfalli og 17 prósentum hættara við alvarlegri hjartabilun en fólki sem vinnur 35 - 40 tíma á viku. Þá leiðir rannsóknin einnig í ljós að rekja má allt að þriðjung allra vinnutengdra veikinda til of langrar vinnuviku.

„55 klukkustunda vinnuvika eða þaðan af lengri er alvarleg ógn við heilsu fólks,“ segir Dr. Maria Neira, sem stýrir umhverfis-, loftslags- og heilsufarsdeild Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. „Það er kominn tími til að við öll; ríkisstjórnir, vinnuveitendur og starfsfólk áttum okkur á því að langur vinnutími getur leitt til ótímabærs dauða.“ 

Rannsóknina má kynna sér betur á vef Environment International.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV