Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Lögregla áréttar varkárni vegna gasmengunar við gosið

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Lögreglan á Suðurnesjum varar við því að yfirborðsmengun geti verið í jarðvegi við gosstöðvarnar í Geldingadölum, einnig í snjó og yfirborðsvatni vegna þungmálma og uppsöfnunar flúors. Gas getur safnast fyrir í dalnum í hægviðri og þá getur gas yfir hættumörkum lagt langt upp í hlíðar umhverfis gosstöðvarnar.

Þegar þannig háttar þurfa áhorfendur að færa sig upp á fjöll og hryggi en ekki halda sig í brekkunum fyrir ofan. Lögreglan hvetur fólk til að fylgjast með mælingum á loftgaedi.is og leiðbeiningum frá Almannavörnum. 

Gossvæðið er hættulegt, ekki síst vegna mengunarinnar sem er mest í næsta nágrenni við það. Lögreglan bendir á að loftmengun veldur því að ekki er ráðlagt að dvelja þar langdvölum. 

Mökkurinn leggst undan vindi og því öruggast að horfa til eldstöðva með vindinn í bakið. Velja þarf gönguleið eftir vindaspá hverju sinni og forðast skal að taka hunda með sér á svæðið.

Jafnframt er börnum, öldruðum, barnshafandi konum og fólki með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma ráðlagt frá því að fara að gosinu sé einhver loftmengun yfirvofandi.

Lögregla áréttar að henni sé heimilt að loka fyrir allt aðgengi að gosinu án fyrirvara.

Í dag er spáð hægri austan og norðaustanátt, þremur til átta metrum á sekúndu og því má búast við gasmengun vestur og suðvestur af gosstöðvunum, til að mynda í Grindavík.  

Síðdegis lægir enn með hægri breytileg átt og skúrum eða slydduéljum á svæðinu. Við það má vænta þess að gasið berist skammt frá gosstöðvunum