Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Lægstu laun á íslenskum vinnumarkaði

17.05.2021 - 17:20
Mynd: RÚV / RÚV
Íslenska flugstéttarfélagið sendi í dag sáttasemjara ríkisins kjarasamninga sem það hefur gert fyrir flugmenn og flugliða flugfélagsins Play. Sáttasemjari hafði ítrekað leitað eftir að fá samningana því skylda er að skila öllum kjarasamningum til embættisins. Forseti ASÍ segir að sér hafi brugðið þegar hún sá samning flugfreyja. Hann kveði á um lægstu laun sem sést hafi á íslenskum vinnumarkaði núna.

Íslensk laun

"Íslenskir kjarasamningar, íslensk laun, allar reglur á íslenskum vinnumarkaði virtar og við erum stolt af því að vera íslenskt fyrirtæki og við ætlum að spila eftir þeim reglum," sagði Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins Play, í fréttum RÚV í gær.

Félagið hefur fengið flugrekstrarleyfi, von er á fyrstu vél þess innan skamms og stefnt er að því að fyrsta áætunarflug verði til London 24. júní. Og kjarasamningar eru klárir við Íslenska flugstéttarfélagið. Þeir voru reyndar í höfn haustið 2019 þegar Play var við það að hefja sig til flugs. Svo skall á heimsfaraldur og ekkert varð úr því af skiljanlegum ástæðum.

Gagnrýni ASÍ

En það ríkti óvissa um kaup og kjör flugmanna og flugliða hjá félaginu haustið 2019. Alþýðusamband Íslands hafði áhyggjur og sendi frá sér ályktun 5. nóvember.

Gerð verður krafa um að félagið, eins og aðrir atvinnurekendur sem starfa hér á landi, gangi til kjarasamninga um kjör starfsmanna sinna áður en það hefur sig til flugs. ASÍ treystir því að hið nýja fyrirtæki ætli sér ekki að keppa á íslenskum flug- og ferðamarkaði á grundvelli félagslegra undirboða.

Mjög góð laun í boði

Play boðaði til blaðamannafundar 5. nóvember. Þar var tilkynnt að kjarasamningar væru í höfn. Starfsmönnum Play yrðu greidd laun í samræmi við íslenska kjarasamninga. Í viðtali við Morgunblaðið sagði María Margrét Jóhannsdóttir að gagnrýni ASÍ væri innistæðulaus. Play byði upp á mjög góð laun, betri en fyrrverandi starfsmönnum WOW hefðu staðið til boða. Áhafnir yrðu að koma sér sjálfar til og frá Keflavík.

Kjarninn sagði frá því á þessum tíma að Play hefði náð 27-37% kostnaðarlækkun miðað við samninga WOW air. Jafnframt væri stefnt að því að ná betri nýtingu á áhöfnum. Hún yrði 800 til 900 klukkustundir á ári. Til samanburðar væri nýtingin hjá Icelandair 550 klukkustundir.

Íslenska flugmannafélagið, sem var stofnað 2014, samdi fyrir hönd flugmanna hjá WOW air. Flugliðar eða flugfreyjur voru hins vegar í Flugfreyjufélagi Íslands sem á aðild að Alþýðusambandi Íslands. Nafninu var breytt í Íslenska flugstéttarfélagið sem semur bæði fyrir flugmenn og flugfreyjur. Flugfreyjufélag Íslands hefur ítrekað farið fram á að Play semji við félagið en því hefur verið hafnað.

Skiluðu samningum eftir ítrekun

Skylda er að skila afriti af öllum kjarasamningum til sáttasemjara. Hann hefur ítrekað frá því í fyrravor beðið um að fá samningana. Við því hefur ekki verið orðið þar til dag að samningar bæði flugmanna og flugliða voru sendir til embættisins. Þeir voru reyndar óundirritaðir og hefur sáttasemjari óskað eftir að fá undirritaða samninga.

Samningar Play við flugmenn og flugliða gilda í rösk fimm ár, frá 1. september 2019 til 1. febrúar 2025. Grunnlaun flugliða eru frá 260 þúsund krónum á mánuði upp í 360 þúsund. Laun flugmanna eru frá 300 þúsund krónum upp í 1.150 þúsund krónur. Samkvæmt samningnum áttu laun flugmanna að hækka í mars um 3% og flugliða um 2,5%. Í mars á næsta ári hækka svo laun flugmanna um 3,6% og flugliða um 3%. 2023 hækka laun hjá báðum hópum um 3,9% og 2024 um 4,7% og 4,6%. Launaflokkarnir eru sjö hjá flugmönnum en fjórir hjá flugliðum.
 

Brá í brún

En hver eru viðbrögð Drífu Snædal, forseta ASÍ, eftir að hafa rýnt í samninginn. Hún segist ekki geta kvittað undir að þetta séu íslenskir kjarasamningar, íslensk laun, allar reglur á íslenskum vinnumarkaði séu virtar eins og forstjóri Play sagði hér í upphafi.

„Mér brá heldur betur í brún því þetta eru lægstu laun sem við höfum séð á íslenskum vinnumarkaði núna. Grunnlaunin eru 266 þúsund og fimm hundruð krónur. Við vitum það að það var samið um það í kjarasamningum 2015 að fara með grunnlaunin upp í 300 þúsund. Þannig að þeir eru miklir eftirbátar. Í öðru lagi gildir samningurinn til 2024, en almennir samningar renna út á næsta ári. Í þessu ástandi sem er núna er mjög hæpið að vera að gera langtímasamninga. Síðan ef við tökum mið af þeim samningum sem Flugfreyjufélagið hefur gert við Icelandair þá eru nánast allir launaliðir verri, hvort sem við erum að tala um vinnutíma, desember- eða orlofsuppbót og lífeyrisgreiðslur eru ekki tryggðar samkvæmt þeim kjarasamningum sem eru á almennum markaði, 15,5%. Dagpeningarnir eru lægri og það er ekki minnst á orlofssjóð, sjúkrasjóð eða endurmenntunarsjóð. Þannig að ég tel þetta vera ekki bara verri kjör heldur verri kjaratengdir liðir en ég hef séð áður í íslenskum kjarasamningum,“ segir Drífa Snædal.

Málinu ekki lokið

Það veki líka athygli að flugfélagið ætli í raun að fjármagna stéttarfélagið með mótframlagi við það sem starfsmenn greiða. Miðstjórn ASÍ mun fjalla um málið á miðvikudaginn og þar verður þess væntanlega krafist að samningar verði gerðir við Flugfreyjufélag Íslands.

„Þessu máli er sannarlega ekki lokið. Að sjálfsögðu munu þeir flugliðar sem ráðast til starfa þarna sækja fram um sín kjör og réttindi því ég get ekki ímyndað mér að það sé hér stór stétt sem ætli að láta þetta viðgangast næstu árin, að vera með miklu lægri laun en gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði,“ segir Drífa.