Kaktus Einarsson - Kick The Ladder

Mynd: One Little Independent / Kick the Ladder

Kaktus Einarsson - Kick The Ladder

17.05.2021 - 15:20

Höfundar

Kick The Ladder er langþráð fyrsta breiðskífa íslenska tónskáldsins og lagahöfundarins Kaktusar Einarssonar. Kaktus er einn af forsprökkum síðpönk-sveitarinnar Fufanu og platan kemur út hjá One Little Independent Records þann 21. maí.

Gerð skífunnar var stýrt af Kaktusi sjálfum ásamt svissneska
raftónlistarmanninum Kurt Uenala, einnig þekktur sem Null & Void, en hann hefur meðal annars stýrt upptökum hjá Depeche Mode, Black Rebel Motorcycle Club, The Kills, Dave Gahan og Moby.

Kaktus sem er uppalinn í Reykjavík hefur komið víða við á tónlistarferli sínum sem hófst við tíu ára aldur, þegar hann byrjaði að spila með Ghostdigital. Hljómsveitin hans Fufanu hefur hitað upp fyrir hljómsveitir á
borð við Radiohead og Red Hot Chili Peppers hér á landi og þeir hituðu einnig upp fyrir Blur í Hyde Park. Sveitin hefur farið í ófáar tónleikaferðir og spilað á þekktum tónlistarhátíðum á borð við Primavera Sound, Rock Werchter, Musilac og Down The Rabbit Hole.

Kaktus er nú 28 ára og eftir að hafa mótað skilning sinn á lagasmíðum og upptöku- og framleiðsluferlinu á ferlinum má segja að platan Kick The Ladder marki tímamót, þar sem hún daðrar við að brúa bilið milli tveggja ólíkra heima: popp- og samtímatónlistar.

Kaktus samdi plötuna á Íslandi og þróaði hljóðheim hennar í Kaupmannahöfn í samvinnu við franska píanistann Thibault Gomez. „Hans tækni var mikill innblástur, og saman unnum við að því að koma óhefðbundinni píanóspilatækni inn í mínar popplagasmíðar,“ segir Kaktus og bætir við: „Við skiptum hljóðgervlum út fyrir píanó með því að leika okkur að þeirri tækni sem undirbúið píanó bíður upp á. Meðal annars plokkuðum við píanóstrengina og notuðum á þá fiðluboga og jafnvel e-bow. Einnig framkölluðum við trommuheilaáhrif á flygilinn með því að lemja hann að neðan með kústskafti.“

Breiðskífan byggist að miklu leyti á hugmyndinni um hvernig við nálgumst umhverfi okkar, hvort sem það er náttúran eða fólkið í kringum okkur. Útkoman er djúpstæð, melódísk plata með víðfeðmum og nýstárlegum hljómi. „Öll lögin á þessari plötu eru ástarbréf til umhverfis míns,“ segir Kaktus. „Sum lögin eru samtal tveggja einstaklinga, önnur gætu verið skrifuð til náttúrunnar og þess sem er að gerast á jörðinni okkar.“

Plata Kaktus Einarsson - Kick The Ladder er plata vikunnar á Rás 2 og verður spiluð í heild sinni ásamt kynningum Kaktusar eftir 10-fréttir í kvöld og er aðgengileg í spilara.