Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hiti getur rofið tíu stiga múrinn í dag

17.05.2021 - 06:57
Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Hæð yfir Grænlandi stjórnar enn veðurfari hér á landi og heldur fremur köldum loftstraumi að landinu. Í dag getur hitinn rofið 10 stiga múrinn ef nægilega bjart verður en um landið norðanvert verður heldur kaldara.

Þegar líður á vikuna gera spár ráð fyrir að meira sjáist til sólar á Norðurlandi sem verður til að hækka hitastigið eitthvað yfir daginn að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Aftur á móti verður víða næturfrost.

Hæg austan og norðaustanátt er á Reykjanesskaga, 3 til 8 metrar á sekúndu og því má búast við gasmengun vestur og suðvestur af gosstöðvunum, til dæmis í Grindavík.

Síðdegis lægir og líklegt að við taki hæg breytileg átt og skúrir eða slydduél á svæðinu. Gasið berst þá væntanlega skammt frá gosstöðvunum að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV