Greina hegðun kjósenda á samfélagsmiðlum

Stjórnmálaflokkar geta með aðstoð Facebook flokkað kjósendur tiltölulega nákvæmt með svokallaðri „örnálgun“ eða microtargeting. Þá er tækninni beitt til þess að greina hegðun kjósenda á samfélagsmiðlum í þeim tilgangi að finna út hvaða áhugamál eða hagsmuni hver kjósandi hefur og í kjölfarið búa til sérsniðin skilaboð sem er beint að tilteknum hópi kjósenda.

Fjallað var um málið í Kastljósi í kvöld sem sjá má hér í spilaranum.

Tæknin felur einnig í sér að unnt er að spá fyrir um hvaða áhrif þessi sérsniðnu skilaboð hafa. Með þessari greiningu á hegðun kjósandans á samfélagsmiðlum er búið til svokallað „persónusnið“, það byggir t.d. á því hvaða upplýsingar kjósandinn gefur upp um sig, hvar hann býr, hvort hann er í björgunarsveit eða íþróttafélagi, hvað kjósandinn „lækar“ við hjá öðrum, eða hvaða efni hann deilir, hvaða vini hann á og svo fram eftir götunum.  Eftir stendur að hver kjósandi verður hluti af hópi kjósenda sem stjórnmálaflokkarnir vilja ná til – en þessi hópur fær bara tilteknar auglýsingar. En ekki aðrar.

Persónuvernd óskaði eftir nákvæmum upplýsingum frá stjórnmálaflokkunum sem voru í framboði fyrir síðustu Alþingiskosningar um það hvernig þeir beittu örnálgun í aðdraganda kosninga. Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, var gestur Kastljóss í kvöld.

einar's picture
Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV